Almannaheillanefnd

12953. fundur 05. maí 2009

Fundargerð


Föstudaginn 6. mars. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.


Mættir:


Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa


Aðrir:

Arnaldur Bárðarson, Glerárkirkja

Arnar Jóhannesson, Vinnumálastofnun

Guðný Björnsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Trausti Þorsteinsson, Háskólinn á Akureyri

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja


Gestir:

Daníel Guðjónsson, Lögreglan

Þorsteinn Pétursson, Lögreglan

Engilbert Sigurðsson, form. nefndar ríkisins um sálfræðileg viðbrögð

Salbjörg Bjarnadóttir, í nefnd ríkisins um sálfræðileg viðbrögð

Héðinn Unnsteinsson, í nefnd ríkisins um sálfræðileg viðbrögð
  1. Staða mála.


Engar breytingar hafa verið á HAK. Minni viðvera virðist vera í Frístundinni í grunnskólunum en litlar breytingar á fæði. Mikið er að gera í félagsþjónustunni en samt viðráðanlegt. Nokkuð er farið að bera á að fólk í vinnu og með nokkuð góðar tekjur sækir eftir fjárhagsaðstoð og er í skoðun hvort hægt sé að mæta þar útgjöldum vegna barna. Fólk sem stundað hefur svarta vinnu er farið að biðja um fjárhagsaðstoð en það fólk á engan rétt á atvinnuleysisbótum. Atvinnulausir fá nú frítt í sund hluta dagsins og hefur því verið vel tekið.

Rifjaðir voru upp fundir með atvinnurekendum þar sem Akureyrarstofa hefur farið á og verkefnið “Brostu með hjartanu” sem Akureyrarstofa hefur lítillega stutt fjárhagslega. Sagt frá sambandi Akureyrarstofu við atvinnulífið almennt. Akureyrarstofa hefur fengið það hlutverk að deila út 25 m.kr. fjárveitingu til átaksverkefna og móta reglur þar um. Nú þegar hafa nokkrar umsóknir borist. Í undirbúningi er að halda áfram með auglýsingar um ókeypis atburði í samvinnu við nýju möguleikamiðstöðina í Rósenborg.

Í félagsmiðstöðvunum er meiri ró en var um tíma og aðsókn í Húsið eykst. Þar er unnið með unglingunum og leitað allra leiða til að fræða þá. Möguleikamiðstöðin fyrir atvinnulausa er að fara í gang og ráðningar í ferli. Til stendur að opna um miðjan mánuð.

Eftirspurn eftir heimaþjónustu hefur aukist vegna lokunar endurhæfingarplássa í Kristnesi. Skoðað verður með möguleg dagtilboð fyrir langveikt fólk.


Farið er að hægjast með nýskráningu atvinnulausra en 7,1% atvinnuleysi er á öllu Norðausturlandi. Á Akureyri eru 1114 atvinnulausir og þar af 411 í hlutaatvinnuleysi eða 36,7%. Á öllu svæðinu eru 1256 og af þeim 448 í hlutaatvinnuleysi eða 35,7%. Karlar eru 811 og konur 445. Verkefni skrifstofunnar er fyrst og fremst að halda sjó og koma út bótum til atvinnulausra. Í undirbúningi eru kynningar á úrræðum og námskeiðum. Talsvert er leitað af atvinnurekendum til skrifstofunnar eftir fólki til ráðningar.

Hjá vinnumarkaðsráði er ýmis vinna í gangi. Flestir atvinnulausir eru á aldrinum 16-24 ára og mjög margt af þeim hefur litla menntun. Samstarf er við Húsið um að skoða möguleika fyrir þennan aldurshóp. Fólk í hlutaatvinnuleysi er ekki í atvinnuleit sem stendur í þeirri von að úr rætist síðar.

Allt gott er að frétta úr VMA og brottfall nemenda hlutfallslega minna en sl. ár. Árshátíð skólans er í kvöld og er vel sótt.

Hjá verkalýðsfélögunum er lítið nýtt að frétta. Talsvert margir starfsmenn fengu framlengingu á uppsögn um 1 mánuð nú um mánaðarmótin. Sagt frá uppsögnum Brims á Grenivík. Hjá Kili er rólegra en verið hefur – yfirvinna og bitlingar að hverfa. Betra hljóð er þar í fólki.

Rauði Krossinn opnaði sitt hús í Reykjavík fyrir atvinnulausa og opið þar kl. 14-18 daglega. Þjónustan þar stendur Landsbyggðinni til boða án greiðslu. Enn er fjölgun símtala í neyðarsímann. Rýnihópar voru að störfum með erlendum ríkisborgurum í fyrradag til að kanna stöðu þeirra. Niðurstöður liggja fyrir fljótlega. Fylgst er með stöðu mála í Lautinni og Fjölsmiðjunni.

Sagt var frá breytingunum á Sjúkrahúsinu en minni aðsókn er til sérfræðinga þar nema geðlækna. Illa horfir með endurhæfingu aldraðra vegna breytinganna í Kristnesi. Læknar hafa minnkað sín stöðuhlutföll til að geta haldið sjúkraþjálfurum í starfi.

Frá kirkjunum er lítið nýtt að frétta. Aukning er í aðstoð og erfið mál að koma upp. Lítil aðsókn er ennþá að opnu húsi í Glerárkirkju á mánudagsmorgnum. Rætt var um hvort foreldrar myndu biðja um fjárhagsaðstoð vegna fermingarfræðslu en aðeins er byrjað að bera á því hjá fjölskyldudeild.

Í Háskólanum er allt með kyrrum kjörum. Niðurskurður í rekstri þar hefur komið niður á ýmsu starfi þar svo sem rannsóknarleyfum og fl. Lítið hefur reynt á áfallateymi sem sett var á fót þar.


2. Gestir:


Daníel kvað Lögregluna ekki merkja fjölgun afbrota nema síður væri. Skemmtanalífið breyttist eftir hrunið en er að færast í svipað horf og áður. Sagt var frá sérstöku átaki í fíkniefnamálum sem sett var á fót sl. sumar og skilað hefur góðum árangri. Áhyggjur manna út af aldurshópnum 16-24 ára hafa ekki komið fram hjá Lögreglunni. Gott samband hefur verið við Akureyrarbæ undanfarin ár. Forvarnarfulltrúi Lögreglunnar sagði frá starfi sínu. Svipaður fjöldi barnaverndartilkynninga er ár frá ári. Rúnturinn hefur styst og hugsanlega eru ódýrari fíkniefni meira í gangi.

Engilbert kvað þörf á að halda fólki virku. Rætt var um ýmsar myndir atvinnuleysisins.


Ræddar voru áhyggjur manna út af miðaldra eldri karlmönnum sem misst hefðu vinnuna og nauðsynlegt væri að fylgjast vel með þeim hópi. Sagt var frá opnu húsi í Húna á laugardagsmorgnum. Nefndarmenn munu funda með Jónatani Magnússyni á eftir um átak íþróttafélaganna. Rætt var um endurhæfingu geðfatlaðra hjá Sjúkrahúsinu og að endurhæfingaráætlanir marga væru í uppnámi vegna breytinga. Rifjuð voru upp tilmæli Landlæknis um að láta niðurskurð bitna minnst á geðlæknisþjónustu og heilsugæslu. Ennþá vantar nánari greiningu á atvinnulausum til að vita við hvernig hóp er verið að eiga.