Almannaheillanefnd

12952. fundur 05. maí 2009

Fundargerð

Föstudaginn 20. febr. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26, Akureyri.


Mættir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hulda Pétursdóttir, heilsugæslustöð

Karl Guðmundsson bæjarritari

Karólína Gunnarsdóttir, fjölskyldudeild

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristinn H. Svanbergsson íþróttadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa


Aðrir:

Guðný Björnsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur Björgvin Þorsteinsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sigríður Huld Jónsdóttir, Verkmenntaskólinn á Akureyri

Sigurlaug Gunnarsdóttir, Menntaskólinn á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja  1. Staða mála.


Ekkert nýtt er að frétta af HAK og litlar breytingar á eftirspurn. Lokun plássa í Kristnesi hefur haft áhrif á möguleika MND sjúklinga og fl. að fara í viðhaldsmeðferð þar og það hefur aukið álag á heimaþjónustuna. Fleiri leita eftir fjárhagsaðstoð án þess að nein holskefla hafi orðið. Leitað er leiða til að koma til móts við fæðiskostnað barna og fl. í leik- og grunnskólum hjá foreldrum sem ella myndu ekki falla undir núgildandi fjárhagsaðstoðarreglur. 600 þús. var greitt úr fjárhagsaðstoðinni fyrir aðstoð vegna barna í janúar sl.

Lítið nýtt er að frétta úr Rósenborg nema hvað unnið er að fullum krafti að þeirri hugmynd að stofna þar miðstöð fyrir atvinnuleitendur sem myndi hefja störf í byrjun mars. Samstarfsaðilar verða Svæðisvinnumiðlun, verkalýðsfélögin og Vinnumarkaðsráð og er vinnuheiti á henni “Möguleikamiðstöð”. Kominn er pólskur ráðgjafi til starfa hjá Alþjóðahúsi Norðurlands.

Úr grunnskólunum er það helst að frétta að allnokkur aukning er á fæðissölu til barna milli ára en aðeins hefur fækkað frá því í nóv. sl. en þó mismunandi eftir skólum. Nýting er samt góð. Tvær kannanir voru sýndar á fundinum varðandi nýtingu barna á fæði og könnun meðal kennara á ýmsum þáttum tengt ástandinu í þjóðfélaginu.

40% aukning er á aðsókn og tekjum milli ára í Hlíðarfjalli. Ræddar hafa verið hugmyndir um hvort hægt væri að fá erlenda aðila til að sækja fjallið heim. Verkefni íþróttafélaganna með stuðningi Samherja er vel sótt og ca 250 manns að meðaltali sem nýta sér það í hverri viku. Ný verkefni eru þar í farvatninu. Íþróttaráð hefur samþykkt að veita atvinnulausu fólki frían aðgang að Sundlaug Akureyrar frá kl. 09-14 daglega á virkum dögum en um það verður samstarf við Vinnumálastofnun.

Frá Akureyrarstofu er það helst að frétta að sameiginleg auglýsing hefur ekki ennþá verið send út vegna veikinda starfsmanna. Sagt var frá átaksverkefni Akureyrarbæjar fyrir atvinnuleitendur og hvaða skilyrði væru þar en það stendur starfseiningum bæjarins og félagasamtökum í bænum til boða. Lögð er áhersla á nýjar hugmyndir og að þeim verði dreift á allt árið. Rækta þarf góðar hugmyndir með stuðningi allra sem að því geta komið til að lækka rekstrarkostnaðinn. Rætt var nokkuð um að það vantaði meiri bjartsýni inn í umræðuna í þjóðfélaginu því fjölmiðlar væru mjög neikvæðir yfirleitt og það hefði áhrif.


Í Glerárkirkju er aukinn þungi í viðtölum og símtölum. 5-8 manns sækja mánudagsmorgnana að meðaltali en atvinnulausir virðast alltaf vera á leiðinni. Haldið verður áfram með verkefnið. Meira en tvöföldun er á stuðningsbeiðnum frá fyrra ári til Hjálparstofnunar kirkjunnar en hver fjölskylda getur sótt um 3svar á ári. Foreldrar virðast draga úr að leggja fé til ferðalaga barna á vegum kirkjunnar. Kirkjurnar eiga að vera hugarfarsmiðstöðvar á jákvæðum nótum og m.a. verður fræðsla nk. sunnudag á undan messu.

Litlar breytingar eru hjá verkalýðsfélögunum nema hvað aukinn þungi er í viðtölum og símtölum. Lögfræðiþjónusta er lítið notuð enn sem komið er.

Atvinnuleysi eykst hratt á Akureyri og voru í morgun 1191 atvinnulausir á Akureyri sem er fjölgun um 166 frá síðasta fundi. Ekki lágu fyrir tölur um hversu margir af þeim hefðu alfarið misst vinnuna en einhver hluti þeirra fór á hlutaatvinnuleysisbætur. 2 starfsmenn hafa verið ráðnir tímabundi af atvinnuleysisskrá og áfram er verið að draga saman upplýsingar um netföng atvinnulausra úr kerfinu. Mikið er beðið um upplýsingar frá ýmsum aðilum en erfitt að verða við þeim sem stendur. Eitthvað ber á að fólk skrái sig ekki strax og það missir vinnuna og missir þá bótarétt á meðan. Þörf er á að auglýsa betur réttindi fólks í þessum efnum.

Í framhaldsskólunum er allt frekar rólegt en þó mikið að gera hjá námsráðgjöfum sem er ekkert nýtt. Mikil þátttaka er enn sem komið er í útskriftarferð MA næsta haust. Nemendur eru að hætta í VMA eins og venjulega en virðast einhver fá vinnu. Skólinn er sprunginn hvað varðar aðsókn og fjarnámið er svipað og verið hefur. Mikil fjölgun er milli ára á áskrift í mötuneytum framhaldsskólanna.

Á FSA er minnkandi eftirspurn eftir sérfræðiþjónustu og meira er um að fólk geti ekki greitt fyrir þjónustu á geðdeild. Áhyggjur eru út af lélegri nýliðun starfsfólks svo sem lækna. Hugarfarið er mikilvægt svo hægt sé að laða að ungt fólk til starfa. Sagt var stuttlega frá heimsókn heilbrigðisráðherra til FSA og þeim skilaboðum sem henni fylgdu.

Lítið hefur breyst hjá Rauða Krossinum en verið er að fara á stað með verkefni að skoða stöðu atvinnulausra útlendinga. Rýnifundur verður í næstu viku með hópi innflytjenda.


Að lokum var rætt um breytingarnar í samfélaginu og nauðsyn þess að líta þær líka jákvæðum augum svo sem meiri fjölskylduvera fólks og fl.