Almannaheillanefnd

12951. fundur 05. maí 2009

Fundargerð

Föstudaginn 6. febr. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Skipagötu 14, Akureyri.


Mættir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hulda Pétursdóttir, heilsugæslustöð

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristinn H. Svanbergsson íþróttadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri ( til kl. 11.00 )


Aðrir:

Guðný Björnsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Heimir Kristinsson, Félag byggingamanna

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Matthildur Sigurjónsdóttir, Eining-Iðja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja


Halldór Jónsson FSA (kl. 11.00)

Þorvaldur Jónsson FSA (kl. 11.00)


  1. Staða mála.


Ekkert nýtt er að frétta af HAK og litlar breytingar á eftirspurn eftir þjónustu. Í málefnum fatlaðra er lítið nýtt annað en mikil ásókn í störf.

Í Húsinu er að fara í gang aftur starf með ungu fólki í samráði við Vinnumálastofnun og sjálfboðaliðastörf eru líka í skoðun. Aukning varð á aðsókn í Punktinn í desember en sveiflast til. Nýir gestir þurfa meiri aðstoð. Hópar frá Starfsendurhæfingu eru að nýta sér aðstoðina. Fundað var í vikunni út af hugmyndinni um aðstöðu fyrir atvinnuleitendur í Rósenborg og unnið verður áfram að málinu. Stefnt að því að hefja starfið í byrjun mars.

Mikið er að gera á fjölskyldudeild en það er þróun en ekki kollsteypa. Verið er að skoða fjárhagsaðstoðina nánar m.a. m.t.t. hvort hægt sé að koma til móts við fólk með góðar tekjur en erfiða atvinnu- og/eða fjárhagsstöðu sem er í erfiðleikum með að greiða kostnað vegna barna sinna. Heyrst hefur að foreldrar hafi áhyggjur af sumarvinnu unglinga næsta sumar.

Niðurgreiðslubréf ÍRA eru farin út og voru reglur rýmkaðar svolítið. 75% bréfa skiluðu sér í fyrra með 12 m.kr. kostnaði. Starfsemin hjá KA gengur vel og er m.a. góð aukning á aðsókn í Boganum. Minni þátttaka hefur verið á opnu húsi eftir hádegi. Aðsóknin í Hlíðarfjalli hefur aukist um ríflega þriðjung frá fyrra ári og eru afleiddar tekjur af starfseminni miklar fyrir Akureyri. Lítil vandræði hefur verið með greiðslu æfingagjalda hjá stóru íþróttafélögunum m.a. vegna niðurgreiðslustyrks frá Samherja.

Í grunnskólunum er lítið um uppsagnir úr Frístund og skólafæði. Við athugun á skuldastöðu í skólamötuneytum og leikskólagjöldum kemur í ljós lítil breyting milli ára en þó virðist margt benda til að þeim sem skulda sé að byrja að fjölga. Það vekur þó athygli að skuldararnir eru mikið til sömu aðilarnir ár eftir ár. Komið hafa fram óskir um breytingar á þjónustu leikskóla og verður það skoðað. Óformleg könnun meðal grunnskólakennara leiðir í ljós litlar breytingar á hegðun barnanna en helmingur hefur orðið var við breytingar hjá samstarfsfólki. Hjá lögreglu ber á fleiri kvörtunum vegna hávaða og annarra truflana að næturlagi. Engin hefur óskað eftir viðtali við endurskoðendur 2 vikur í röð. Samkvæmt upplýsingum eins útibússtjóra í banka hér á Akureyri er lítið óskað eftir greiðsluaðstoð.

Heyrt var í eigendum verksmiðjunnar Strýtu sem vilja leigja allt húsið á 2 m.kr. á mánuði. Ekki er vilji til að láta fjármuni í þá leigu.


Lítið nýtt er að frétta frá Rauða krossinum. Sagt var frá samráðsfundi í Reykjavík og að starfsemi almannaheillanefndarinnar vekji athygli.

Hjá verkalýðsfélögunum eru símtölin þyngri en áður. Fáir voru í Glerárkirkju sl. mánudagsmorgunn í opnu húsi þar. Dregið hefur úr sjósókn vegna lækkana á fiskverði og sölutregðu afurða.

Sum byggingafyrirtækin vilja framlengja starfssamninga um stuttan tíma og hafa leitað leiðbeininga með það. Þyngri mál eru að dúkka upp á skrifstofum verkalýðsfélaganna. Margir hafa ekki átt von á uppsögn. Hjá opinberum aðilum er yfirvinna að dragast saman.


Atvinnulausir á Akureyri voru í morgun 1.025 en þar af voru 683 í fullu atvinnuleysi eða 66.7%. Karlar voru 651 en konur 374. Ca. 50 manns eiga eftir að staðfesta atvinnuleysi sem skráð hefur verið á netinu. Mörg fyrirtæki hafa lækkað starfshlutfall frekar en að segja einhverjum upp. Af atvinnulausum eru 269 á aldrinum 16-24 ára eða rúm 26%. Hluti þeirra er í einhverju námi. Ekki hefur enn verið heimiluð fjölgun starfsfólks á Vinnumálastofnun.

Vinnumarkaðsráð hefur ekki fundað í febrúar en formaður sat fund allra fulltrúa BSRB í Vinnumarkaðsráðum á landinu nýverið. Þar var rætt um nauðsyn þess að fá frekari greiningu á tölum frá Vinnumálastofnun, sérstaklega hvað varðar fjölda atvinnulausra og fjölda sem eru skráðir samkvæmt nýlegum lögum um hlutabætur. Í svari fulltrúa frá Vinnumálastofnun sem sat fundinn kom fram að skráningarkerfi Vinnumálastofnunnar var ekki verið sniðið að nýju lögunum um hlutabætur og það tæki tíma að að taka við öllum þessum einstaklingum og gefa upplýsingar um þá. Lög um hlutaatvinnuleysisbætur gilda út maí en verður samt framhaldið í ljósi ástandsins á vinnumarkaði, hugsanlega með einhverjum breytingum. Rætt var um nauðsyn þess að kynna vinnumarkaðsúrræðin samkvæmt nýlega endurskoðaðri reglugerð ráðuneytisins sem víðast, sérstaklega þá þætti sem snúa að sérstökum verkefnum, atvinnuátaksverkefnum og sjálfboðaliðastörfum. Nýta þarf öll úrræði sem í boði eru til að draga úr neikvæðum áhrifum atvinnuleysis og viðhalda félagslegri virkni.


  1. Miðstöð fyrir atvinnuleitendur.


Sagt var stuttlega frá vinnu með hugmynd um miðstöð fyrir atvinnuleitendur í Rósenborg. Rætt er um að fá 2 atvinnuleitendur til að halda utan um upplýsingagjöf, tilboð, fræðslu og fl. og að starfsemin verði aðallega opin fyrir hádegi. Starfsemin þarf að draga að atvinnuleitendur og þarf líka að vera í góðu samstarfi við Vinnumálastofnun, verkalýðsfélög og fl. Stefnt að því að fara í gang í mars nk. Verið er að útbúa nokkra netfangalista hjá Vinnumálastofnun sem nota má í verkefninu. Þörf er á að kynna nýjar reglur um vinnumarkaðsúrræði sem fyrst. Umræða varð um sjálfboðaliðastörf og hvernig ná eigi atvinnuleitendum út. Eining-Iðja er að bjóða félagsmönnum sínum upp á ýmis námskeið þeim að kostnaðarlausu.


  1. Málefni heilbrigðiskerfisins.


Fulltrúar FSA mættu nú á fundinn og sögðu stuttlega frá þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til að skera niður útgjöld stofnunarinnar. Spara þurfti um 6% eða 250 - 300 m.kr. Íbúar í Seli voru fluttir fram í Kristnes, Dagdeild geðdeildar var lokað en opnar í nýju húsnæði í haust ásamt göngudeild geðdeildar. Yfirvinna hefur verið skert, lækkun launa yfirmanna, minni sumarafleysingar verða og margt fl. sem gripið verður til. Fækkun starfa er um 25 stöðugildi eða um 40 einstaklingar af 600 starfsmönnum. Verið er að aðstoða starfsmenn við að fá vinnu. Leitað verður eftir fleiri verkefnum frá nýju Sjúkratryggingastofnuninni til að fá meiri tekjur. Nú vantar yfir 80 m.kr. upp á að fjárveitingar komi fyrir S merktum lyfjum. Að mati stjórnenda er um lágmarksbreytingar á þjónustu í ár en ef komi til meiri niðurskurðar á næsta ári verði hann mun alvarlegri gagnvart þjónustu stofnunarinnar. Á undanförnum árum er búið að hagræða mikið með sameiningu deilda og fl. Bráðaþjónustan hefur forgang í rekstrinum en pólitískar ákvarðanir vantar á forgang þjónustunnar. Litlar sem engar leiðbeiningar koma frá ríkinu um hvar á að spara.

Rætt var um endurhæfingaþjónustuna og möguleika á aukningu verkefna þar með samningum við Sjúkratryggingastofnun. Sagt var frá fyrirhugaðri opnun á atvinnulega endurhæfingu sem er samvinnuverkefni og leitað nýrra og styttri leiða þar með auknu fjármagni. Nýir endurhæfingasjóðir eru koma inn með nýjum tækifærum.

Rof verður í þjónustu dagdeildar geðdeildar og er vonast til að BYR, SÍMEY og félagsþjónustan komi að lausn mála ásamt starfsfólki geðdeildar þar til opnað verður í nýju húsnæði nk. haust.

Rætt var um sérfræðilæknisþjónustu og samskipti við TR þar um. Einnig var rætt um samskiptin og samráð við bæjarkerfið/almannaheillanefnd og nauðsyn þess að bæta það.


Fundi slitið.