Almannaheillanefnd

12950. fundur 05. maí 2009

Fundargerð

Föstudaginn 23. jan. 2009 kl. 10.00 var fundur haldinn að Glerárgötu 26 Akureyri.


Mættir:

Fulltrúar Akureyrarbæjar:

Guðrún Sigurðardóttir, fjölskyldudeild

Gunnar Gíslason, skóladeild

Hulda Pétursdóttir, heilsugæslustöð

Karl Guðmundsson bæjarritari

Katrín Björg Ríkarðsdóttir, samfélags- og mannréttindadeild

Kristín Sóley Sigursveinsdóttir, búsetudeild

Þórgnýr Dýrfjörð, Akureyrarstofa


Aðrir:

Guðný Björnsdóttir, Rauði Krossinn á Akureyri

Gunnlaugur Garðarsson, Glerárkirkja

Hafsteinn Jakobsson, Rauði Krossinn á Akureyri

Hanna Rósa Sveinsdóttir, Vinnumarkaðsráð

Margrét Árnadóttir, Kjölur

Pétur Björgvin Þorsteinsson, Glerárkirkja

Sigmundur Sigfússon, Sjúkrahúsinu á Akureyri

Soffía Gísladóttir, Vinnumálastofnun

Sólveig Halla Kristjánsdóttir, Akureyrarkirkja

Þorsteinn E. Arnórsson, Eining-Iðja1. Staðan metin.


Fjárhagsaðstoð jókst um rúm 8% á síðasta ári miðað við árið 2007. Heildarfjöldi sem fékk aðstoð var 365. Farið er að bera á fólki sem er langt yfir öllum kvörðum og skuldar mikið. Biðlisti eftir þjónustu er vel ásættanlegur.

Akureyrarstofa er að hugsa um að taka aftur upp að auglýsa ókeypis viðburði í sjónvarpsdagskránum og eru aðilar beðnir um að senda inn upplýsingar á akureyrarstofa@akureyri.is. Nokkrar hugmyndir um sérstök atvinnuverkefni eru komin til Akureyrarstofu. Sérstaklega er óskað eftir hugmyndum sem tengjast ferðamálum. Sagt var frá áhugaverðum fundi í Brekkuskóla í gær sem fjallaði um hvað getur fólkið sjálft gert ?

Aðeins sóttu 13 um að fá að stunda nám í Menntasmiðju unga fólksins nú á vorönn og voru það vonbrigði að fleiri sóttu ekki um. Fáir virðast líka hafa sótt um nám í MFA skólanum. Sagt var frá hugmynd um að Rósenborg yrði miðstöð fyrir atvinnulausa á ýmsan hátt. Félagsmiðstöðvarnar og Húsið ganga með eðlilegum hætti.

Hjá heilsugæslunni er aðsókn svipuð og verið hefur. Eftir smá tímabundna minnkun er allt aftur fullt í fjölskylduráðgjöfinni.

Hjá búsetudeild hafa lokanir á FSA verið skoðaðar og verður þeim mætt eftir bestu getu. 10 manns áttu von á úrræði á dagdeild Geðdeildar FSA nú í febr. en hætt hefur verið við það.

Sáralitlar breytingar hafa orðið í grunnskólunum og meta skólastjórar ástandið allgott. 1-3 hafa sótt auglýsta tíma hjá endurskoðendum en enginn kom í gær. Almenningur virðist vera með meiri samfélagsvitund sem hjálpar til. Einstaklingur kom og bauð 200 þús. kr. fjárhagsaðstoð í einum grunnskólanum til barna sem ekki gætu greitt fyrir mat sinn. Farið er að bera á áhyggjum foreldra með sumarvinnu ungmenna. Á fundinum í gær kom fram sú hugmynd að hægt væri að kenna fólki sparnað með töku myndbands og sýna það á N4.


Á Vinnumálastofnun er mjög mikið að gera og voru 1260 atvinnulausir í morgun á N. Eystra. Ekki liggja fyrir tölur um Akureyri. Aðallega hefr verið aukning í hlutfallslegu atvinnuleysi. Fleira starfsfólk vantar á Vinnumálastofnun en ekki hefur enn fengist heimild til þess. Vinnumarkaðsráð hefur óskað eftir aukningu á starfshlutfalli.Grunnþjónustunni er sinnt fyrst og fremst en annað bíður. Einhver fyrirtæki eru að taka við sér með aukna atvinnu og er það fagnaðarefni. Nú má vera í námi allt að 33% án þess að atvinnuleysisbætur skerðist. Ráðgjöf stofnunarinnar mun líklega flytjast að einhverju leyti til SÍMEY og Þekkingarseturs Þingeyinga. Búast má við fjölda manns á skrá um nk. mánaðarmót. Ný reglugerð frá ráðuneyti um vinnumarkaðsúrræði byggir mikið á eftirfylgni en mannskap vantar til þess. Ekki hefur gengið vel að fá atvinnulaust fólk á námskeið og þarf að kynna þau betur.

Hjá verkalýðsfélögunum er nokkur aukning á atvinnuleysi hjá sjómönnum sem er nýtt. Þar hafa menn líka áhyggjur út af næstu mánaðarmótum þ.e. fjölda þeirra sem þá verða atvinnulausir. Ýmis erfið réttindamál eru í skoðun. Nýr starfsmaður hefur verið ráðinn í tengslum við endurhæfingasjóð. Hjá Kili er lítið nýtt að frétta en dregið hefur verið úr yfirvinnu víða. Fólk hringir mikið og talar lengi.

Málstofa verður í Glerárkirkju nk. laugardag kl. 13.00 um stöðu mála. Í næstu viku fer af stað dagskrá á mánudagsmorgnum og verða ýmsar kynningar innifaldar í dagskránni. Áhyggjur heyrast út af sumarvinnu ungmenna. Stigvaxandi aðsókn er í viðtöl og mataraðstoð hjá Akureyrarkirkju. Sóknin hefur einhverja fjárhagsmöguleika úr svokölluðum Ljósberasjóði. Ekki hafa opin hús byrjað ennþá eftir áramótin en samkvæmt viðtölum er ástand fólks á öllum stigum.

Á FSA er bráðatilfellum sinnt áfram vel en ekki er aukning í komum. Sparnaður er í gangi á FSA og uppsagnir en í undirbúningi eru endurbætur á Seli fyrir flutning geðsviðsins þangað næsta haust. Margir yfirmenn í heilbrigðisþjónustunni hafa heimsótt FSA undanfarið. Sagt var frá slæmri reynslu Finna af síðustu kreppu þar á ungt fólk til lengri tíma litið.

Hjá Rauða Krossinum eru litlar breytingar. Nokkur námskeið eru í gangi og aukin aðsókn er að Fjölsmiðjunni. Fylgst er vel með þar og í Lautinni. Í undirbúningi er könnun á landsvísu meðal útlendinga. Rætt hefur verið við Stöð 2 og RUV um að sýna þætti frá RK um viðbrögð fólks.


  1. Ýmislegt


Hugmynd um að gera Rósenborg að miðstöð fyrir atvinnulausa var allmikið rædd og leist fólki yfirleitt vel á þá hugmynd. Rætt var um hverjir ættu að reka hana, á hvaða tímum dagsins og hvaða hlutverki hún myndi þjóna. Ákveðið var að vinna hugmyndina áfram og kalla atvinnulausa, Vinnumálastofnun, verkalýðsfélögin og fleiri að borðinu. Katrínu var falið það verkefni.

Pattstaða er með samning við Ráðgjafastöð heimilanna og ekki lýkur á að samningar náist. Rædd sú hugmynd að gera þetta sem reynsluverkefni á Akureyri. Verkalýðsfélögin eru að kynna réttindi og skyldur verkafólks í framhaldsskólunum. Aukið framboð er af sjálfboðaliðum en frekar lítil reynsla er af slíku hér á landi. Akureyrarstofa hefur uppi áform að halda áfram með auglýsingar um aðstoð við atvinnulausa og ókeypis viðburði og kallar eftir upplýsingum frá öllum aðilum.Næsti fundur er ráðgerður 6. febrúar nk.