Skýrsla bæjarstjóra 8/9-21/9/2021

Nýr rekstrarsamningur Akureyrarbæjar og Siglingaklúbbsins Nökkva undirritaður. Tryggvi Jóhann Heimis…
Nýr rekstrarsamningur Akureyrarbæjar og Siglingaklúbbsins Nökkva undirritaður. Tryggvi Jóhann Heimisson formaður Nökkva og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 21. september 2021.

Áfram er nú unnið að þeim umtalsverðu skipulags- og stjórnsýslubreytingum sem standa fyrir dyrum hjá Akureyrarbæ. Undirbúningnum miðar vel en að sjálfsögðu þarf að halda tryggilega um alla þræði og það er í mörg horn að líta. Síðustu vikurnar hef ég setið ófáa vinnufundi vegna þessa og einnig vegna fjárhagsáætlunar Akureyrarbæjar sem tengist óhjákvæmilega þessum breytingum með ýmsum hætti.

Miðvikudaginn 8. september fór ég til Grímseyjar ásamt Höllu Björk Reynisdóttur, forseta bæjarstjórnar, til að vera við útför Bjarna Magnússonar fyrrverandi hreppstjóra í Grímsey. Blessuð sé minning hans.

Fimmtudaginn 9. september var mikill hátíðisdagur, þegar formleg vígsla á nýju aðstöðuhúsi siglingaklúbbinsins Nökkva fór fram í blíðskaparveðri. Þá var einnig skrifað undir nýjan rekstrarsamning sem kveður á um að siglingaklúbburinn sjái um rekstur og umsjón nýja hússins og svæðisins.

Sama dag var gengið frá ráðningu Sumarliða Helgasonar í starf sviðsstjóra á nýju þjónustu- og skipulagssviði og kemur hann til starfa í byrjun næsta mánaðar.

Föstudaginn 10. september sat ég fund með almannavarnarnefnd en daginn áður hafði verið lýst yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju. Þar hefur land risið um 6-7 sentímetra frá því í byrjun ágúst og er talið líklegast að kvika sé að safnast fyrir undir eldstöðinni – því er vissara að hafa varann á.

Föstudaginn 10. september átti ég einnig fund með stjórn Flokkunar Eyjafjarðar ehf. þar sem tekið var fyrir erindi frá SSNE um að gera úttekt á möguleikunum í kringum líforkuver. Á döfinni eru áframhaldandi fundir og umræður um þetta mál.