Skýrsla bæjarstjóra 4/11-17/11/2020

Ásthildur flytur erindi á alþjóðlegri netráðstefnu um samstarf ríkja á Norðurslóðum.
Ásthildur flytur erindi á alþjóðlegri netráðstefnu um samstarf ríkja á Norðurslóðum.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 17. nóvember 2020.

Þrátt fyrir samkomutakmarkanir, nálægðarmörk og aðrar sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19 þá halda hjól atvinnulífsins til allrar hamingju áfram að snúast og síðustu vikurnar hef ég átt fjölda fjarfunda með einstaklingum og fulltrúum fyrirtækja um stöðu mála. Þar ber ýmislegt á góma, meðal annars sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir, skipulagsmál, lóðamál og framtíð rekstrar fyrirtækja í bænum. Þótt staðan sé snúinn þá skynja ég samt að fólk er engan veginn á því að leggja árar í bát og samtal mitt við þetta fólk er yfirleitt á jákvæðu og uppbyggilegu nótunum.

Stöðufundir vegna þróunar Covid-19 faraldursins eru haldnir þrisvar í viku líkt og áður með sviðsstjórum sveitarfélagsins og tvisvar í viku er bæjarfulltrúum boðið að sitja þessa fundi. Einnig sit ég reglulega fundi aðgerðastjórnar Almannavarnanefndar Norðurlands eystra um sama málefni.

Miðvikudaginn 4. nóvember var haldinn áhugaverður fundur um styttingu vinnuvikunnar og þær áskoranir sem við þurfum að horfast í augu við þegar kemur að útfærslu á styttingu vinnutímans á leikskólastiginu.

Þriðjudaginn 10. nóvember var haldinn fundur um nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og fyrirhugaða staðsetningu þeirra og miðvikudaginn 11. nóvember var haldinn annar fundur verkefnahópsins um höfuðstaðastefnuna eða hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni.

Haustfundur almannavarnarnefndarinnar í umdæmi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra var haldinn fimmtudaginn 12. nóvember og allar síðustu vikur hafa verið haldnir reglulegir vinnufundir bæjarstjórnar Akureyrar um fjárhagsáætlun og fleira.

Mig langar einnig að nefna að á föstudögum hittist samstarfsfólk í föstudagskaffi á netinu, slær á létta strengi, heldur samkeppni um flottasta Teams-bakgrunninn og alls konar.

Og ekki má heldur gleyma samráðsfundum bæjar- og sveitarstjóra á Eyjafjarðarsvæðinu sem haldnir eru mánaðarlega og var síðasti fundur okkar á dagskrá föstudaginn 13. nóvember. Þessir fundir eru mjög mikilvægir, ekki síst í ljósi allra þeirra óvenjulegu verkefna sem við höfum þurft að takast við á árinu, svo sem óveður og Covid-19. Þær eru ýmsar áskoranirnar sem blasa við sveitarfélögunum á því herrans ári 2020.

Loks er þess að geta að í morgun hélt ég stutt erindi á alþjóðlegri netráðstefnu um samstarf ríkja á Norðurslóðum eða Cooperation in the Arctic sem haldin var á Zoom og einnig streymt á Youtube. Þar talaði ég um þau áhrif sem Covid-19 faraldurinn hefur á rekstur sveitarfélaga og þau tækifæri sem þó eru framundan í stafrænum veruleika. Það var áhugaverð ráðstefna.