Skýrsla bæjarstjóra 3/3-16/3/2021

Ásthildur flytur ávarp á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akurey…
Ásthildur flytur ávarp á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akureyri.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 16. mars 2021.

Vikulegir fundir okkar með fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands halda áfram og verður að segjast sem er að ég hef talsverðar áhyggjur af því hversu hægt allt ferlið við yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimilanna til ríkisins gengur. Nú eru aðeins sex vikur til stefnu en við eigum sannast sagna ennþá óralangt í land. Það stendur þó ekki á okkur hjá Akureyrarbæ því við leggjum ofurkapp á að tilreiða öll þau gögn sem beðið er um eins skjótt og verða má og greiða með öllum tiltækum ráðum fyrir þessu ferli. Aldrei skal verða hægt að halda því fram að við tefjum framgang þess með nokkrum hætti.

Viðræður okkar við mennta- og menningarmálaráðuneytið um nýjan menningarsamning við Akureyrarbæ héldu áfram miðvikudaginn 3. mars og vísast til framsögu formanns stjórnar Akureyrarstofu hér að framan hvað það mál varðar.

Fimmtudaginn 4. mars áttum við bæjarfulltrúar Halla Björk Reynisdóttir og Gunnar Gíslason fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar sem kastljósinu var beint að Hrísey og Grímsey, atvinnulífinu þar og framtíð búsetu í eyjunum. Var ánægjulegt að skynja áhuga Katrínar á þeim málum sem þarf að greiða úr varðandi Grímsey og Hrísey.

Og í framhaldi af fundinum með forsætisráðherra átti ég síðan fund í gær með Héðni Unnsteinssyni sérfræðingi hjá forsætisráðuneytinu og Hermanni Sæmundssyni skrifstofustjóra hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem rætt var um framhald málsins innan ríkisstjórnarinnar.

Fimmtudaginn 4. mars flutti ég stutt ávarp við opnun Frönsku kvikmyndahátíðarinnar á Akureyri og miðvikudaginn 10. mars hélt ég stutta tölu við upphaf lokahátíðar Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór í Kvosinni, sal Menntaskólans á Akureyri. Það var ánægjulegt að hlusta á krakkana lesa ljóð og sögur af mikilli innlifun og næmni.

Í morgun átti ég fund með Jennýju Karlsdóttur og Bryndísi Símonardóttur um Rannsóknarstofu handverks sem þær vilja koma á laggirnar hér á Akureyri – býsna áhugaverð hugmynd þar á ferðinni.

Og í morgun tók ég þátt í fjarfundi á vegum samtaka svæða við Eystrasaltið sem starfa á vegum Evrópusambandsins – þar talaði ég um mikilvægi Akureyrar sem miðstöðvar Norðurslóðastarfs á Íslandi og stöðu kvenna á strjálbýlum Norðurslóðum.