Skýrsla bæjarstjóra 3/2-16/2/2021

Nýr samstarfssamningur við Fjölsmiðjuna var undirritaður 12. febrúar. Á myndinni eru Ásthildur Sturl…
Nýr samstarfssamningur við Fjölsmiðjuna var undirritaður 12. febrúar. Á myndinni eru Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Erlingur Kristjánsson forstöðumaður Fjölsmiðjunnar.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 16. febrúar 2021.

Í byrjun mánaðarins áttum við kynningarfund með fulltrúum fyrirtækis sem þróað hefur stofnframlagsverkefni til íbúðabygginga meðal annars á Bíldudal, Sauðárkróki og Seyðisfirði sem var áhugavert.

Miðvikudaginn 3. febrúar var haldinn aukaaðalfundur Arctic Mayors' Forum þar sem reynt var að skyggnast inn í framtíðina hvað varðar stöðu þeirra ríkja sem eiga aðild að samtökunum en það hljóp snurða á þráðinn hjá okkur nýverið þegar í ljós kom að Rússar telja sig ekki geta tekið fullan þátt í starfinu og hafa óskað eftir að vera eins konar áheyrnarfulltrúar.

Fimmtudaginn 4. febrúar heimsótti ég Hlíðarfjall til að skoða aðstæður þar en gríðarleg aðsókn er að Fjallinu um þessar mundir og var uppselt þar um síðustu helgi og verður eflaust næstu helgar líka.

Þann sama dag var fundað með borgarstjóranum í Reykjavík og umhverfisráðherra um almenningssamgöngur í landinu - og eigendafundur Norðurorku var haldinn föstudaginn 5. febrúar.

Eins og kom fram í umræðum hér að framan þá hefur mikill tími, orka og fyrirhöfn farið í samskipti – og á stundum samskiptaleysi - við Sjúkratryggingar Íslands vegna fyrirhugaðrar yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila í sveitarfélaginu til ríkisins.

Við höfum nú fengið utanaðkomandi aðila frá lögfræðistofunni Logos til að gæta hagsmuna Akureyrarbæjar gagnvart SÍ og virðist ekki vanþörf á.

Ég vil einnig nefna að fimmtudaginn 11. febrúar áttum við afar góðan fund með forstöðumönnum og stjórnendum hjá Öldrunarheimilum Akureyrarbæjar þar sem fólk var upplýst um stöðu mála og afstöðu Akureyrarbæjar í öllu þessu ferli. Það var afar gagnlegur fundur. Áður hafði ég sent bréf til allra starfsmanna ÖA þar sem farið var yfir málið.

Loks vil ég geta þess að þriðjudaginn 9. febrúar áttum við öflugan fund með Strategíu um starfsháttabreytingar hjá sveitarfélaginu; föstudaginn 12. febrúar var undirritaður nýr samstarfssamningur við Fjölsmiðjuna um það mikilvæga starf sem þar fer fram; og þann sama dag var haldinn að Borgum mikilvægur samráðsfundur um Norðurslóðasamstarf á Akureyri í kjölfar þess að Norðurslóðanetið var valið áhersluverkefni hjá SSNE með umtalsverðum fjárhagslegum stuðningi.