Skýrsla bæjarstjóra 3/11-16/11/2021

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 16. nóvember 2021.

Miðvikudaginn 3. nóvember héldum við stjórnarfund í Flokkun Eyjafjarðar ehf. þar sem sveitarstjórar í firðinum ræddu úrgangsmál.

Daginn eftir áttu fulltrúar Akureyrarbæjar fund með sveitarstjórum Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps, Hörgársveitar og Grýtubakkahrepps um málefni fatlaðra í firðinum og gildandi samning þar að lútandi.

Föstudaginn 5. nóvember flutti ég stutta tölu á blaðamannafundi í Ráðhúsinu í Reykjavík þar sem frumkvöðullinn Haraldur Þorleifsson boðaði átak til að „rampa upp Ísland" með þúsund nýjum hjólastólarömpum á næstu fjórum árum, en áður hefur hann „rampað upp Reykjavík" með stuðningi frá góðu fólki. Vilyrði er fyrir að fjármagni verði meðal annars veitt norður til að gera gangskör í aðgengismálum fatlaðra hér á Akureyri.

Og áfram er unnið stjórnsýslubreytingunum hjá sveitarfélaginu, nýtt svið er að myndast við flutninga milli hæða. Launa- og mannauðsdeild er að flytja sig upp á 3. hæð og við sem þar höfum verið erum komin á jarðhæðina. Reyndar hefur Covid-19 sett strik í reikninginn, tvö smit eru í ráðhúsinu og allnokkrir í sóttkví.

Tekin var upp myndbandskveðja frá Akureyrarbæ og Arctic Mayor's Forum sem við sendum á ráðstefnu um norðurslóðamál sem nú stendur yfir í Rovaniemi í Finnlandi.

Og fimmtudaginn 11. nóvember átti ég fund með starfsfólki Hlíðarfjalls og umhverfis- og mannvirkjasviðs um þær breytingar sem verða þegar starfsemin færist frá samfélagssviði yfir til umhverfis- og mannvirkjasviðs sem nú þegar hefur tekið gildi.

Loks má geta þess að í gær flutti ég erindi um Akureyri og Arctic Mayor's Forum og tók þátt í pallborðsumræðum í tengslum við Rovaniemi Arctic Spirit þingið sem nú stendur yfir í Finnlandi – og seinnipartinn í gær átti ég ágætan fund með framkvæmdastjóra Félags kvenna í atvinnulífinu og konum úr stjórn FKA Norðurlands.