Skýrsla bæjarstjóra 2/6-15/6/2021

Fyrsta skóflustungan að nýrri alþjóðaflugstöð á Akureyrarflugvelli tekin. Frá vinstri: Hjördís Þórha…
Fyrsta skóflustungan að nýrri alþjóðaflugstöð á Akureyrarflugvelli tekin. Frá vinstri: Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. Mynd af vef Isavia.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 15. júní 2021.

Miðvikudaginn 2. júní undirritaði ég fyrir hönd Akureyrarbæjar nýjan samning við Flóru menningarhús um leigu á Sigurhæðum til næstu fjögurra ára. Það gleður mig mjög að nú færist aftur líf í Sigurhæðir og að þjóðskáldinu Matthíasi Jochumssyni verði þar með sýndur sá sómi sem honum ber.

Seinna þann sama dag var ég viðstödd þegar fræðsluráð veitti nemendum og starfsfólki í leik- og grunnskólum bæjarins viðurkenningar fyrir að hafa skarað fram úr í skólastarfi. Það var föngulegur og glæsilegur hópur sem kallaður var upp til að taka við viðurkenningarskjölum sínum. Húrra fyrir þeim.

Fimmtudaginn 3. júní kom Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands ásamt sínu fólki til skrafs og ráðagerða við okkur Guðrúnu Sigurðardóttur sviðsstjóra velferðarsviðs um hin ýmsu mál.

Og föstudaginn 4. júní var ákaflega ánægjulegur viðburður í Íþróttahöllinni í tilefni þess að nú er um það bil ár liðið frá því að Akureyrarbær hlaut viðurkenningu UNICEF sem fyrsta barnvæna samfélagið á Íslandi.

Ég sat aðalfund Félags eldri borgara á Akureyri í síðustu viku og í byrjun þessarar talaði ég um dásemdir Akureyrar við félagana Patrek Jaime og Binna Glee á Listasafninu en þeir voru að gera eins hvers konar sjónvarpsþátt um bæinn.

Og dagurinn í dag var skóflustungudagur – því í morgun var tekin fyrsta skóflustungan að nýrri verslun Krónunnar á Hvannavallareitnum og eftir hádegið var stigið merkt og afar mikilvægt framfaraskref í samgöngumálum og uppbyggingu ferðaþjónustu hér í bæ þegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri alþjóðaflugstöð á Akureyrarflugvelli – sannarlega tími til kominn og gríðarlega mikilvægt skref í framtíðaruppbyggingu í sveitgarfélaginu og á Norðurlandi öllu.

Loks vil ég geta þess að síðustu vikurnar hafa þær stjórnsýslubreytingar hjá Akureyrarbæ sem samþykktar voru af bæjarstjórn hér á undan, tekið mikinn tíma af minni dagskrá og gott að þær séu nú loksins í höfn. Ég er sannfærð um að þessar breytingar munu gera alla stjórnun bæjarins mun markmissari og skerpa fókusinn hjá okkur til framtíðar.