Skýrsla bæjarstjóra 21/4-4/5/2021

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Hilda Jana Gísladótti…
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Hilda Jana Gísladóttir formaður stjórnar SSNE og Embla Eir Oddsdóttir framkvæmdastjóri Norðurslóðanets Íslands.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 4. maí 2021.

Miðvikudaginn 21. apríl var haldið málþing um Norðurslóðastarf með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í Menningarhúsinu Hofi. Þar voru rædd tækifæri Akureyrar í Norðurslóðastarfi og lögð áhersla á mikilvægi bæjarins sem miðstöðvar Norðurslóðastarfs á Íslandi. Vegna fjarlægðar- og fjöldatakmarkana gátu fáir verið í salnum en fundurinn var sendur út beint á netinu og þar fylgdust vel á annað hundrað manns með framsöguerindum og umræðum.

Síðdegis þann sama dag áttum við góðan fund með ráðherranum í Ráðhúsinu og var ánægjulegt að heyra einlægan stuðning hans við hlutverk Akureyrar í samstarfi þjóða og þjóðarbrota á Norðurslóðum. Hvatti hann okkur til dáða á því sviði og benti á leiðir til að styrkja stöðu okkar enn frekar.

Mánudaginn 26. apríl mættu starfsmenn Umhverfisstofnunar norður og tóku upp stutt viðtal við mig fyrir ársþing stofnunarinnar þar sem ég ræddi mikilvægi starfa án staðsetningar og ýmsa fleti á því máli.

Þriðjudaginn 27. apríl fundaði ég ásamt sviðsstjóra samfélagssviðs með starfsmanni íslenska sendiráðsins í París um ráðstefnuröð barnvænna borga og sveitarfélaga sem fyrirhugað er að halda víða um Evrópu fyrri hluta árs 2022.

Aðalfundur Northern Forum samtakanna var haldinn fimmtudaginn 29. apríl. Samtökin fagna nú 30 ára afmæli sínu og á fundinum flutti ég stutta tölu um mikilvægi þess starfs sem þar er unnið og þýðingu þess fyrir Akureyri í fortíð og framtíð.

Seinna þann sama dag flutti ég ávarp á ársþingi Íþróttabandalags Akureyrar.

Föstudaginn 30. apríl – síðasta dag mánaðarins – átti ég afar ánægjulega stund með stjórnendum Öldrunarheimila Akureyrar og forsvarsmönnum Heilsuverndar hjúkrunarheimila ehf. á Kaffi Sól á Hlíð þar sem við buðum upp á veitingar, færðum stjórnendum blóm og þökkuðum afar gott og gjöfult samstarf á liðnum árum.

Frá því á síðasta ári hefur verið unnið að yfirgripsmiklum breytingum á stjórnkerfi sveitarfélagsins með það að markmiði að gera það skilvirkara, meira straumlínulagað og stytta ýmsar boðleiðir. Þær breytingar eru nú komnar á góðan rekspöl og hef ég átt ófáa fundi um verkefnið á síðustu vikum.