Skýrsla bæjarstjóra 2/12-15/12/2020

Akureyri í jólabúningi.
Akureyri í jólabúningi.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 15. desember 2020.

Mál málanna síðustu vikurnar hefur verið fyrirhuguð yfirfærsla á rekstri Öldrunarheimilanna frá Akureyrarbæ til ríkisins. Þegar samningum var sagt upp síðasta vor, var lagt upp með að þetta gengi greiðlega fyrir sig og myndi klárast fyrir áramót - en raunin hefur orðið önnur. Það er alveg ljóst að Akureyrarbær ætlar ekki að reka hjúkrunarheimili enda er það lögbundið hlutverk ríkisins. Hins vegar höfum við nú, að ósk heilbrigðisráðherra og Sjúkratrygginga, fallist á að annast rekstur ÖA út apríl 2021 en með breyttum áherslum og sveitarfélaginu að kostnaðarlausu. Þannig mun Sjúkratryggingum Íslands gefast ráðrúm til að hnýta lausa enda sín megin frá og vonandi ljúka þessu máli loks með farsælum hætti.

Ófáa fundi vegna þessa hef ég setið síðustu tvær vikurnar og fundir vegna Covid-19 hafa líka verið fyrirferðarmiklir en hægst hefur á þeim eftir að Norðausturland var lýst smitlaust í lok síðustu viku.

Þriðjudaginn 8. desember var fundað um miðlæga stjórnsýslu og fyrirhugaða viðbyggingu við Ráðhúsið en undirbúningur að byggingu hennar er hafinn. Áætlað er að hægt verði að spara um 200 milljónir á ári með þeirri hagræðingu sem hlýst af því að hafa alla stjórnsýslu Akureyrarbæjar á einum stað.

Sama dag - þriðjudaginn áttunda - var ég fundarstjóri á opnum kynningarfundi á netinu um fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar. Óhætt er að segja að sá fundur hafi tekist með miklum ágætum og ég geri það hér með að tillögu minni að við höldum mun fleiri slíka kynningarfundi um mikilvæg málefni með þessum hætti á netinu, jafnvel þótt Covid-19 verði horfið veg allrar veraldar sem vonandi verður sem fyrst. Fjarfundir á netinu hafa einfaldlega sannað gildi sitt.

Föstudaginn 12. desember átti ég síðan fund með fjármálaráðherra þar sem rædd voru framlög ríkisins til menningarmála á Akureyri en nýr menningarsamningur er í farvatninu - og að sjálfsögðu bar þar yfirfærsluna á rekstri Öldrunarheimilanna til ríkisins einnig á góma.

Að lokum vil ég þakka bæjarstjórn Akureyrar gott samstarf á árinu sem er að líða, vona að þið hafið það notalegt á aðventunni og óska ykkur öllum gleðilegra jóla.