Skýrsla bæjarstjóra 20/10-2/11/2021

Þriðjudaginn 26. október kom Karl-Werner Schulte færandi hendi og afhenti sveitarfélaginu 50 verðmæt…
Þriðjudaginn 26. október kom Karl-Werner Schulte færandi hendi og afhenti sveitarfélaginu 50 verðmæt Íslandskort sem bætast við glæsilegt safn fágætra korta sem þau hjónin hafa gefið Akureyrarbæ og verða varðveitt á Minjasafninu.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 2. nóvember 2021.

Miðvikudaginn 20. október átti ég góðan fund með Jennifer Spence framkvæmdastjóra vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun, en Jennifer var tvo daga á Akureyri í kjölfar Hringborðs Norðurslóða sem haldið var í Reykjavík. Hún fundaði hér með fjölmörgum aðilum sem tengjast hlutverki Akureyrar sem miðstöðvar Norðurslóðastarfs á Íslandi. Með okkur Jennifer á fundinum voru Eyþór Björnsson og Elva Gunnlaugsdóttir frá SSNE, og Embla Eir Oddsdóttir framkvæmdastjóri Norðurslóðanets Íslands.

Daginn eftir, fimmtudaginn 21. október, kom í heimsókn til mín í Ráðhúsið Irina Zhilina frá Efnahagsráði Norðurskautsins sem hefur bækistöðvar sínar í Tromsø í Noregi og við ræddum ýmsa möguleika Akureyrar á sviði Norðurslóðamála.

Seinna sama dag átti ég fund með Haraldi Þorleifssyni sem hefur áhuga á því að koma til Akureyrar með verkefnið Römpum upp Ísland – eða Römpum upp Akureyri – en það vakti mikla athygli þegar hann hratt af stað átakinu Römpum upp Reykjavík fyrr á árinu.

Föstudaginn 22. október var ég síðan boðuð í sjónvarpsviðtal hjá bandaríska fréttamanninum Mike Walter sem var afar áhugavert í alla staði – við ræddum alla heima og geima og þá ekki síst dásemdir Akureyrar. Og þann sama dag var ég einnig í Föstudagsþættinum á N4.

Mánudaginn 25. október sat ég aðalfund Menningarfélagsins Hofs fyrir hönd Akureyrarbæjar og aðalfund Menningarfélags Akureyrar þremur dögum síðar.

Þriðjudaginn 26. október kom vinur Akureyrar, Karl-Werner Schulte, færandi hendi og afhenti sveitarfélaginu 50 verðmæt Íslandskort sem bætast við glæsilegt safn fágætra korta sem þau hjónin hafa gefið Akureyrarbæ og verða varðveitt á Minjasafninu.

Fimmtudaginn 28. október kíkti ég í heimsókn til AkureyrarAkademíunnar sem hélt upp á 15 ára afmæli sitt þann dag.

Og loks vil ég geta þess að í seinnipartinn í gær, hélt velferðarsvið Akureyrarbæjar í samvinnu við Rauða krossinn við Eyjafjörð, dálítið samsæti fyrir fólk af erlendum uppruna sem sest hefur að í bænum síðustu misserin. Það var ákaflega ánægjulegt að hitta þessa nýju bæjarbúa og heyra að flestir þeirra virðast una hag sínum vel á Akureyri.

Annars hafa sem fyrr fundir vegna stjórnsýslubreytinga og fjárhagsáætlunar verið mjög áberandi í dagskrá minni og hef ég áður gert grein fyrir þeirri vinnu sem þar fer fram.