Skýrsla bæjarstjóra 20/1-2/2/2021

Ásthildur með Helgu St. Jónsdóttur sem fagnaði 100 ára afmæli sínu á Dalbæ á Dalvík.
Ásthildur með Helgu St. Jónsdóttur sem fagnaði 100 ára afmæli sínu á Dalbæ á Dalvík.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 2. febrúar 2021.

Síðustu vikur hef ég átt samtal við alla sviðsstjóra bæjarins - maður á mann - þar sem við höfum farið yfir fjárhagsáætlunarferlið og rætt um næstu skref. Mjög mikilvægt er að við séum öll samstíga í starfi okkar næstu mánuði og misseri þar sem við erum óneitanlega í þröngri stöðu vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Eins höfum við rætt um nýja íbúakönnun sem nýlega kom fram. Það er gaman að segja frá því að nær allir íbúar Akureyrarbæjar eru ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á, samkvæmt niðurstöðum nýrrar þjónustukönnunar Gallup. Yfirleitt eykst ánægja með þjónustu bæjarins eða stendur í stað milli ára, en í þremur flokkum hefur viðhorf til þjónustunnar aldrei mælst jákvæðara. Mikið í gangi á Skipulagssviði og merkjanlegt að íbúar eru ánægðari með þjónustuna. Mörg umbótaverkefni í gangi og það hafa verið miklar breytingar á sl. ári.

Miðvikudaginn 20. janúar var ég í Hofi með formanni frístundaráðs þar sem við afhentum þremur mætum einstaklingum heiðursviðurkenningar frístundaráðs og seinnipartinn þann sama dag krýndum við íþróttakarl og -konu Akureyrar fyrir árið 2020. Skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir úr SA er íþróttakona Akureyrar árið 2020 og kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA er íþróttakarl Akureyrar 2020.

Það kyngdi niður snjó á Norðurlandi seinni hluta mánaðarins og lögreglan hélt nokkra stöðufundi með almannavörnum og bæjar- og sveitarstjórum vegna snjóflóðahættu og viðsjárverðra aðstæðna sem sköpuðumst, meðal annars víða við Eyjafjörð.

Þriðjudaginn 26. janúar skoðaði ég nýframkvæmdir í bænum; Nökkvahúsið sem nú er óðum að rísa, smáhýsi í Sandgerðisbót, íbúðir í Glerárholti, nýja leikskólann Klappir og framkvæmdirnar í Lundarskóla.

Miðvikudaginn 20. janúar áttum við upplýsandi og gagnlegan fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um stöðu og framtíð skipasmíðaiðnaðarins í landinu og þá einkum og sér í lagi hér á Akureyri.

Skýrsla Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra kom út 21. janúar en þar eru lagðar fram ýmsar tillögur um aukið samstarf Íslands og Grænlands. Mikilvægt er að Akureyri, sem miðstöð málefna Norðurslóða á Íslandi, geri sig enn frekar gildandi á þessu sviði og höfum við lagt fyrir ráðherra tillögur um aðkomu Akureyrarbæjar að auknu samstarfi þjóðanna. Miðvikudaginn 27. janúar átti ég fund með Unni Brá Konráðsdóttur sérfræðingi hjá forsætisráðuneytinu sem á sæti í Grænlandsnefndinni og í gær, mánudaginn 1. febrúar, átti bæjarstjórn auk mín gagnlegan fund með utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um málið.

Fimmtudaginn 28. janúar sat ég merkilegt rafrænt málþing á netinu á vegum Akureyrarbæjar og SSNV þar sem fjallað var um þau tækifæri sem felast í breyttum tímum og færanleika fólks og starfa. Og þann sama dag tók ég þátt í pallborðsumræðum í málstofu um stöðu menntaðra kvenna á Norðurslóðum og jafnréttismál almennt. Málstofan var haldið af Arctic Mayors' Forum í tengslum við Arctic Frontiers ráðstefnuna sem árlega er haldin í Tromsö í Noregi en fer fram rafrænt að þessu sinni.

Föstudaginn 29. janúar fundaði ég með Haraldi Líndal Haraldssyni um vinnu hans við skýrslu um um málefni fatlaðra á Akureyri og loks langar mig að geta þess að nú í morgun heimsótti ég Helgu St. Jónsdóttur sem í dag fagnar 100 ára afmæli sínu. Ég færði Helgu blóm og góðar kveðjur frá bæjarstjórn Akureyrar. Helga býr nú á Dalbæ á Dalvík en bjó mesta hluta ævi sinnar í sveitarfélaginu okkar, nánar tiltekið í Hrísey. Það er óskandi að við verðum öll jafn ern og glöð eins og Helga þegar kemur að því að við fögnum aldarafmæli okkar.