Skýrsla bæjarstjóra 18/11-1/12/2020

Ljósin tendruð á jólatrénu. Ásthildur og Adam Grønholm frá danska sendiráðinu í Reykjavík, ásamt dön…
Ljósin tendruð á jólatrénu. Ásthildur og Adam Grønholm frá danska sendiráðinu í Reykjavík, ásamt dönsk-íslensku systkininum Dagmar Elvíru 4ra ára og Erik Valdemar 6 ára sem studdu á hnappinn til að kveikja ljósin.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 1. desember 2020.

Til hamingju með fullveldisdaginn.

Það þarf ekki að orðlengja það að vikurnar sem nú líða, einkennast af varnarviðbrögðum og viðspyrnu í miðjum heimsfaraldri. Vinnufundir vegna fjárhagsáætlunar hafa sem gefur að skilja tekið töluvert pláss síðustu vikur og mánuði en nú sér loks fyrir endann á þeirri vinnu. Eins eru fundir vegna Covid-19 áberandi í dagskrá minni - bæði með aðgerðastjórn Almannavarna og yfirstjórn bæjarins. Þeim fundum hefur nú verið fækkað en nýjar tölur um smit í landinu eru sannast sagna nokkuð uggvænlegar - vonandi tekst þó að halda þessu í skefjum.

Eins og komið hefur fram á þessum bæjarstjórnarfundi, þá er vinnu við sameiningu fjölskyldusviðs og búsetusviðs nú um það bil að ljúka en markmiðið er að gera þjónustuna skilvirkari og notendavænni. Óska ég starfsfólki og stjórnendum til hamingju með sameininguna sem ég er sannfærð um að verður okkur öllum til heilla.

Fimmtudaginn 19. nóvember áttum við fund með Sjúkratryggingum Íslands um rekstur öldrunarheimilanna og nú ríður á að hnýta alla lausa enda og klára málið hratt og örugglega.

Unnið er að því að gera nýjan menningarsamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið og sú vinna er loksins að komast á góðan rekspöl. Haldnir hafa verið fundir með fólki frá ráðuneytinu og var sá síðasti á dagskrá fimmtudaginn 26. nóvember.

Í síðustu viku átti ég athyglisverðan fund með starfsfólki Eims um sjálfbærni á Akureyri og loks vil ég geta þess að ljósin á jólatrénu frá Randers, vinabæ okkar í Danmörku, voru tendruð í beinni útsendingu á RÚV síðasta föstudagskvöld. Ekki þótti ábyrgt að stefna fólki saman til hátíðarhalda á Ráðhústorgi eins og gert hefur verið síðustu árin en þetta tókst vel og nú er bærinn óðum að klæðast í allan sinn litríka jólaskrúða.