Skýrsla bæjarstjóra 17/3-20/4/2021

Mynd: Öldrunarheimili Akureyrar.
Mynd: Öldrunarheimili Akureyrar.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 20. apríl 2021.

Það hefur helst borið til tíðinda, frá því bæjarstjórn kom saman síðast, að Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Heilsuvernd Hjúkrunarheimili ehf. um að taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar og hefur samningur þess efnis verið staðfestur af heilbrigðisráðherra. Við hittum forsvarsmenn Heilsuverndar á fundi í gær og það leynir sér ekki að þar er á ferðinni öflugt fagfólk sem hefur metnað til að halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið á Öldrunarheimilum Akureyrar.

Nú eru blikur á lofti hvað varðar Covid-19 smit á Íslandi og svo var einnig fyrir páska. Þá áttum við nokkra fundi með viðbragðsteymi Almannavarna og ef fram heldur sem horfir á þessum viðsjárverðu tímum þá er óhjákvæmilegt að slíkir fundir verði aftur á dagskrá næstu vikurnar. Við vonum að til þess þurfi ekki að koma en erum að sjálfsögðu við öllu búin.

Og þá að öðru.

Mánudaginn 22. mars átti ég fund með starfsfólki forsætisráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, um stöðu og framhald ýmissa verkefna í Grímsey og Hrísey, en tekin hefur verið ákvörðun um að framlengja verkefnið „Glæðum Grímsey" um tvö ár í viðbót.

Daginn eftir var eigendafundur Norðurorku og þann sama dag hélt ég kynningu á starfsemi sveitarfélagsins fyrir fólk af erlendum uppruna sem stundar íslenskunám hjá SÍMEY... Við áttum síðan fjarfund með starfsfólki mennta- og menningarmálaráðuneytisins um þau áform að koma á laggirnar listnámi á háskólastigi á Akureyri – og loks var haldinn í Hofi kynningarfundur um verkefnið „Tryggð byggð" á vegum félagsmálaráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Föstudaginn 26. mars var aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga haldinn og þriðjudaginn 30. mars áttum við ánægjulegan og upplýsandi fund með Öldungaráði Akureyrarbæjar...
Síðan tók við langþráð páskafrí en laugardaginn fyrir páska mætti ég niður á kaja til að taka á móti nýju skipi Samherja, Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, og færði áhöfninni blóm með hamingjuóskum frá bæjarstjórn í tilefni dagsins.

Síðustu vikurnar hefur dómnefnd um tillögur að viðbyggingu og breytingum á Ráðhúsi Akureyrarbæjar fundað reglulega. Eftir forval hafa fjögur fyrirtæki verið valin til að skila inn tillögum að breytingum fyrir 24. júní næstkomandi og dómnefnd kveður upp úrskurð sinn eigi síðar en 12 júlí.

Ég hef upp á síðkastið átt góða fundi með sviðsstjórunum sveitarfélagsins, hverjum fyrir sig, þar sem farið hefur verið ítarlega yfir 90 daga sprettina og starfsáætlanir sviða...
Og seinnipartinn í gær var haldinn opinn fjarfundur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun um hið nýja átaksverkefni „Hefjum störf" sem ég vona sannarlega að eigi eftir að skila góðum árangri og geti nýst Akureyrarbæ vel til að minnka atvinnuleysi og koma fólki til verka.