Skýrsla bæjarstjóra 17/2-2/3/2021

Sunnudaginn 21. febrúar heimsótti bæjarstjórinn Álfheiði Jónsdóttur og færði henni blómvönd frá bæja…
Sunnudaginn 21. febrúar heimsótti bæjarstjórinn Álfheiði Jónsdóttur og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn í tilefni aldarafmælis hennar.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 2. mars 2021.

Það er vor í lofti og brúnin léttist á mannfólkinu um leið og virðist rofa til í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Að venju hefur ýmislegt borið til tíðinda í starfi mínu síðustu dægrin.

Stærsta einstaka málið á mínu borði síðustu vikurnar – og raunar mánuðina – er án efa skil á rekstri hjúkrunarheimila til ríkisins en á ýmsu hefur gengið í viðræðum okkar við Sjúkratryggingar Íslands. Starfsfólk sveitarfélagsins og lögfræðingur okkar hjá Logos lögmannsþjónustu funda nú vikulega með fulltrúum sjúkratrygginga og þótt ýmsar blikur séu á lofti þá virðist nú sem loksins sé kominn nokkur skriður á málið. Tveir aðilar hafa tilkynnt sig til SÍ og ljáð máls á því að taka við rekstrinum. Ég er hóflega bjartsýn um að senn sjái til sólar í þessu flókna og erfiða máli.

Undanfarið höfum við átt fundi um atvinnulífið í bænum með ýmsum fyrirtækjum sem hér starfa. Miðvikudaginn 17. febrúar var rætt við forsvarsmenn Norðlenska og Kjarnafæðis – en mikilvægi þessara matvælafyrirtækja fyrir atvinnulífið í firðinum er auðvitað ótvírætt og þau undirbúa nú samruna sinn sem vonandi gengur í gegn innan tíðar. Þriðjudaginn 23. febrúar áttum við samskonar samtal við stjórn KEA.

Í síðustu viku átti ég þónokkra fundi með sérfræðingum og hagsmunaaðilum um lagningu ljósleiðara yfir sundið til Hríseyjar. Í ljós kom að lagning ljósleiðara í byggðakjarnanum sjálfum er ekki styrkhæf í verkefninu „Ísland ljóstengt" frekar en önnur ljósleiðaravæðing hverfa innan sveitarfélagsins, en við höfum lagt inn erindi til fjarskiptasjóðs um að taka upp milliliðalausar viðræður við sveitarfélagið um lagningu ljósleiðara frá fasta landinu yfir í eyjuna.

Mánudaginn 22. febrúar átti ég fund með Haraldi Líndal Haraldssyni um úttekt hans á stöðu og málefnum fatlaðra í sveitarfélaginu, en skýrsla hans liggur nú fyrir og hefur þegar verið kynnt fyrir velferðarráði og starfsfólki velferðarsviðs. Góður rómur hefur verið gerður að þessari vinnu Haraldar.

Þriðjudaginn 23. febrúar var ég boðuð á fund velferðarnefndar Alþingis ásamt sveitarstjórum annarra sveitarfélaga sem hafa sagt upp samningum við Sjúkratryggingar um rekstur hjúkrunarheimila – það var hreinskiptinn og vonandi upplýsandi fundur fyrir alla aðila málsins.

Og fimmtudaginn 25. febrúar var ég í hlaðvarpinu hjá Bryndísi Haraldsdóttur þingmanni þar sem við ræddum Norðurslóðamál.

Talsverð vinna hefur farið í gerð nýs menningarsamnings við ríkisvaldið og grein sem ég skrifaði það mál í Morgunblaðið um miðjan febrúar vakti talsverða athygli. Ég er hóflega bjartsýn á að orðið verði við kröfum okkar og óskum en líklega fæst botn í það mál á allra næstu dögum.

Loks langar mig að geta þess að sunnudaginn 21. febrúar heimsótti ég Álfheiði Jónsdóttur og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn í tilefni aldarafmælis hennar. Það var afar ánægjulegt og margt skrafað í samkomusal Hlíðar. Álfheiður er ern og hress, en hún var mikil skíða- og útivistarmanneskja á sínum yngri árum og frumkvöðull á því sviði.