Skýrsla bæjarstjóra 17/11-14/12/2021

Vatnsflaumur í Ráðhúsinu. Mynd: Ragnar Hólm.
Vatnsflaumur í Ráðhúsinu. Mynd: Ragnar Hólm.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 14. desember 2021.

Forseti, ágætu bæjarfulltrúar,

Það hefur teygst allverulega úr fundinum okkar hér í dag og ég ætla því aðeins að nefna það allra helsta úr dagbók minni frá því bæjarstjórn kom síðast saman.

Ég hef m.a. fundað með Norðurorku um fráveitumál í sveitarfélaginu.

Árlegur fundur lögreglunnar á Norðurlandi eystra með bæjar- og sveitarstjórum í umdæminu var haldinn 24. nóvember og meðal annars rætt um forvarnir og fræðslu.

Sama dag flutti ég erindi um styrkleika og veikleika samfélaga á norðurslóðum á netráðstefnu sem haldin var að frumkvæði vinabæjar okkar Múrmansk í Rússlandi.

Miðvikudagsmorguninn 7. desember mætti vatnsflaumur starfsfólki sem mætti til vinnu í Ráðhúsið okkar og ljóst að umtalsvert tjón hlaust af, sérstaklega á 4. og 3. hæð hússins; af þessu leiddi talsvert rask á störfum velflestra sem í Ráðhúsinu starfa.

Og fimmtudaginn 9. desember heimsótti ég Hrísey en þar var þá formleg opnun á mikið endurbættri og endurskipulagðri sýningu í Húsi Hákarla-Jörundar. Sýningin sú er til mikillar fyrirmyndar og skora ég á ykkur að skoða hana þegar færi gefst.

Ég læt þetta duga að þessu sinni.