Skýrsla bæjarstjóra 16/6-7/9/2021

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar með…
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrar með ljósmyndina góðu af Húsavík sem Óli Páll tók, líklega sumarið 1962. Mynd af heimasíðu Norðurþings.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni. Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 7. september 2021.

Þetta hefur verið langt og gott sumar. Veðrið hefur leikið við hvurn sinn fingur en vaxandi svæðisborgarsamfélag sefur aldrei og hefur ýmsum boltum verið haldið á lofti þrátt fyrir sumarleyfi, kórónuveirufaraldur og sannkallaða hitabylgju sem lét svo blítt í júlí og ágúst.

Í sumar hefur verið fram haldið vinnu við undirbúning stjórnsýslubreytinga hjá Akureyrarbæ þar sem ber e.t.v. einna hæst breytingar á skipan sviða þar sem verður til nýtt þjónustu- og skipulagssvið en auglýst var eftir nýjum sviðsstjóra undir lok júlí og verður gengið frá þeirri ráðningu á allra næstu dögum. Umtalsverðar aðrar breytingar eru einnig í farvatninu og er ráðgert að þær verði allar komnar til framkvæmda um næstu áramót.

Þjóðhátíðardagurinn var haldinn hátíðlegur eins og vera ber en með þónokkuð öðru sniði en venjulega vegna fjöldatakmarkana sem voru þá miðaðar við 300 manns. Lystigarðurinn var eins og oft áður miðpunktur hátíðarhaldanna hér í bæ og blómabíllinn fór um hverfin með lúðraþyt og söng, og skilaði um leið þjóðhátíðarkveðjum til bæjarbúa.

Miðvikudaginn 23. júní var haldinn vinnufundur bæjarstjórnar, formanna ráða og sviðsstjóra þar sem farið var yfir fjárhagsramma sveitarfélagsins og vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Að mínu mati var það afar gagnlegur fundur þar sem góður grunnur var lagður að starfi okkar næstu mánuðina.

Fjórða bylgja Covid-19 lét á sér kræla snemma í júlí og ég sat fjarfund með almannavarnanefnd vegna stöðu mála, en þar var einnig rætt um ýmsa náttúruvá sem að okkur steðjar. Snemma varð ljóst að fólk ætlaði ekki að láta fjórðu bylgjuna lama íslenskt samfélag og smám saman höfum við lært að lifa með veirunni, enda ekkert annað í boði. Þessi nýja bylgja – sem nú er guði sé lof í rénum – hafði því óveruleg áhrif á starfsemi Akureyrarbæjar.

Niðurstöður í samkeppni um viðbyggingu við Ráðhús Akureyrarbæjar og endurbætur á eldra húsnæði voru kynntar 15. júlí. Markmiðið með framkvæmdinni er að færa alla miðlæga starfsemi Akureyrarbæjar á einn stað en með því næst fram umtalsvert hagræði og mun lægri rekstrarkostnaður til lengri tíma litið. Dómnefndin, sem ég veitti forstöðu, komst að þeirri niðurstöðu að veita Yrki arkitektum fyrstu verðlaun fyrir tillögu sína og var hún valin til frekari hönnunar og útfærslu.

Í síðustu viku heimsótti ég sveitarstjóra Norðurþings og færði sveitarfélaginu að gjöf forláta mynd af Húsavík sem Húsavíkurkaupstaður hafði fært Akureyri að gjöf á aldarafmæli kaupstaðarréttinda okkar 29. ágúst 1962. Norðurþing fékk myndina sem sagt til baka í síðustu viku og var það í tilefni af 70 ára afmæli kaupstaðarréttinda Húsavíkur fyrr á árinu. Sveitarfélögin eru bæði í fararbroddi þegar kemur að endurvinnslu og endurnýtingu – og því þótti mér vel við hæfi að endurnýta gjöfina frá 1962 með þessum hætti.

Verkefnishópur um Akureyri sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni hélt lokafund sinn snemma í ágúst og var skýrsla hópsins afhent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í gær. Ég tel að hópurinn hafi unnið mjög gott starf og vona að stjórnvöldum beri gæfa til að hafa tillögur hans að leiðarljósi til framtíðar. Akureyri yrði þar með skilgreind svæðisborg með ýmsum réttindum og skyldum á flestum sviðum stjórnsýslu og mannlífs almennt.

Þetta hefur verið mikið framkvæmdasumar hjá Akureyrarbæ. Ný og endurbætt álma í Lundarskóla var tekin í notkun 23. ágúst og má með sanni segja að þar hafi verið glæsilega að öllu staðið – kennsluhúsnæðið er til fyrirmyndar og svarar að mínu mati fullkomlega þeim kröfum sem gerðar eru til skóla dagsins í dag. Nýi leikskólinn Klappir hefur verið tekinn í notkun og formleg vígsla á nýrri aðstöðu siglingaklúbbsins Nökkva er á dagskrá seinna í vikunni. Allar eru þessar framkvæmdir til mikillar fyrirmyndar.

Nú fer senn að hausta, flestir komnir úr sumarleyfum og spennandi verkefni bíða okkar í ört stækkandi svæðisborg. Ég vona að veturinn fram undan verði gjöfull og blómlegur í starfi bæjarstjórnar Akureyrar.