Skýrsla bæjarstjóra 16/12/2020-19/1/2021

Æskulýðs- og íþróttafrömuðurinn Hermann Sigtryggsson varð 90 ára 15. janúar og hlaut af því tilefni …
Æskulýðs- og íþróttafrömuðurinn Hermann Sigtryggsson varð 90 ára 15. janúar og hlaut af því tilefni blómvönd frá bæjarstjóra og bæjarstjórn.

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi. Flutt á fundi bæjarstjórnar 19. janúar 2021.

Stærstu málin á dagskrá minni síðustu vikurnar hafa verið annars vegar menningarsamningurinn við ríkisvaldið, þar sem sér vonandi bráðum til lands, og hins vegar viðræður við Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið um yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimilanna til ríkisins. Í síðustu viku sendi ég formlegt bréf til SÍ og ráðuneytisins þar sem farið er fram á að lögð verði fram tímasett áætlun um næstu skref í þessari vinnu þannig að allir lausir endar verði hnýttir áður en til yfirfærslunnar kemur 30. apríl næstkomandi. Við megum engan tíma missa í þessari flóknu og afar mikilvægu vinnu sem verður senn að ljúka.

Einnig hefur talsverð vinna farið fram í tengslum við styttingu vinnuvikunnar sem er eins og gefur að skilja ekki einfalt mál í öllum tilvikum eða á öllum vinnustöðum. Þau mál leysast þó vonandi öll farsællega innan tíðar.

Laugardaginn 9. janúar skrifaði ég fyrir hönd Akureyrarbæjar undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæði KA við Dalsbraut.

Miðvikudaginn 13. janúar fundaði verkefnishópur um Akureyri sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni og daginn eftir ávarpaði ég ákaflega vel heppnað „Fyrirtækjaþing" þar sem færri stjórnendur fyrirtækja á Akureyri komust að en vildu. Þann sama dag lagði ég Geðhjálp lið með því að segja nokkur orð um mikilvægi samhygðar í kynningarherferð þeirra sem verður keyrð af stað á næstu dögum og vikum.

Fyrir utan þetta hafa verið haldnir stuttir og langir fundir um skipulagsmál, rætt við bæjarbúa á fjarfundum um ýmis ólík málefni og í morgun fór stjórnendadagur Akureyrarbæjar fram á fjarfundakerfinu Zoom en þar var meðal annars fjallað um það hvernig tíð samtöl stjórnenda og starfsfólks geta nýst sem öflug leið í stjórnun.

Þetta er fyrsti fundur bæjarstjórnar Akureyrar á nýju ári sem færir okkur vonandi fullnaðarsigur sigur í baráttunni við heimsfaraldur Covid-19. Það eru vafalítið erfiðir tímar fram undan - okkur verður þröngt skorinn stakkurinn - en ég trúi þó og vona að undir lok ársins 2021 fari landið aftur að rísa og óska bæjarstjórninni velfarnaðar í öllum sínum störfum.