Skýrsla bæjarstjóra 1/10/2019-5/11/2019

Í lok hvers bæjarstjórnarfundar fer bæjarstjóri yfir helstu verkefni hverju sinni.

Efni skýrslunnar getur tekið breytingum í flutningi.

Flutt á fundi bæjarstjórnar 5. nóvember 2019.

1. október:Hitti þær Vilborgu Jóhannsdóttur og Ingu Vestmann sem eiga heiðurinn að Dömulegum dekurdögum sem skipulagðir eru í byrjun október en hluti af þeirri dagskrá er sala á bleikum slaufum og klútum og rennur allt söluandvirði til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis og kom í ljós í lok mánaðar að alls söfnuðust rúmar 3 milljónir króna. Ég vil þakka þessum kröftugu konum fyrir sitt framlag til þessa verkefnis.

1. október: Sama dag var veitt viðurkenning á Öldrunarheimilum Akureyrar í alþjóðlegri hjólakeppni þar sem eldri borgarar hjóla um heim allan nema bara að þau eru staðsett í Austurbyggðinni. Snilldarverkefni.

3.-4. október: Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna. Ég nýtti ferðina suður líka til að funda með fulltrúum úr fjármálaráðuneytinu.

7. október: Var boðið á fund með Félagi kvenna í atvinnurekstri og mætti þar á samt Evu Hrund Einarsdóttur bæjarfulltrúa. Frábært að heyra af kröftugum konum í viðskiptalífinu.

8. október:Heimsótti fyrirtækið Norland Air ásamt Höllu Björk Reynisdóttur forseta bæjarstjórnar.

8. október: Hitti ungmenni sem tóku þátt í Youth Eco Forum sem skipulagt var af Northern Forum í samvinnu við starfsfólk Akureyrarstofu og félagsmiðstöðvanna. Flottir krakkar sem komu frá Japan og nokkrum sjálfstjórnarhéruðum í Rússlandi.

9. október: Flutti ávarp á ráðstefnu í Hofi sem var hluti af Arctic Circle og var yfirskriftin From National Strategies to Shared Solutions – Best Practices for Sustainable Development in the Arctic and is a Best Practices. Þar töluðu m.a. Ane Lone Bagger ráðherra frá Grænlandi og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð atvinnu- og nýsköpunarráðherra.

10. október: Söguleg stund í Hofi þegar fram fór Arctic Mayors fundur en sá vettvangur var formlega staðfestur með undirritun samstarfsyfirlýsingar níu bæjar- og borgarstjóra í 8 löndum á Norðurslóðum . Stefna Arctic Mayors er að verða áheyrnarfulltrúi í Norðurslóðaráðinu.

11.-12. október: Arctic Circle í Reykjavík. Tók þátt í pallborði í málstofu um málefni dreifbýlisstaða á Norðurslóðum, stjórnaði málstofu á vegum Arctic Mayors þar sem ferðaþjónusta á Norðurslóðum var til umræðu, tók þátt í Plenary Session með Ethan Berkowitz borgarstjóra í Anchorage í Alaska, átti fundi með fulltrúum frá St. Petersburg og fleirum. 

14. október: Tók á móti Clay Coplin sem er borgarstjóri í Cordova í Alaska en við hittumst einmitt á Arctic Circle og var áfram haldið með umræðu um orku- og umhverfismál.

14. október: Heimsókn frá Dr Alberto Colella ítalski sendiherranum og við áttum gott spjall.

16. október: Heimsótti á Hlíð Stefán Sigurðsson sem fagnaði 100 ára afmæli sínu og færði honum blómvönd.

22. október: Var boðið í afmælisveislu vegna 20 ára afmælis skrifstofu ÍSÍ á Akureyri.

23. október: Var boðið að mæta í hagfræðitíma hjá þriðju bekkingum í Menntaskólanum á Akureyri og segja frá því hvaða skyldur sveitarfélag hefur, hvaða verkefnum því ber að sinna og í hvað fjármagnið er notað. Mjög skemmtileg heimsókn.

25. október: Tók á móti Jin Zhijian kínverska sendiherranum á Íslandi og með honum í för voru tveir starfsmenn sendiráðsins. Fundinn sátu einnig bæjarfulltrúarnir Guðmundur Baldvin Guðmundsson og Andri Teitsson.

25. október: Átti samtöl við Grímseyinga um þeirra sýn á stöðuna í eynni og framtíðina en undirrituð ásamt Höllu Björk Reynisdóttur og Gunnari Gíslasyni, sem bæði eru í verkefnastjórn Brothættra byggða, eru þessa dagana að ræða við heimafólk.

28. október: Heimsókn frá góðum gestum frá borginni Martin í Slóvakíu. Þetta voru þau Ján Danko borgarstjóri, Zuzana Kalmanová aðstoðarmaður hans og Runólfur Oddsson konsúll. Fundinn sátu með mér bæjarfulltrúarnir Ingibjörg Isaksen og Andri Teitsson. M.a. var rætt um frekar samstarf á sviðið menntunar- og menningarmála og orku- og umhverfismála en í háskólanum í Martin er kennd læknisfræði og hafa margir nemendur úr MA þreytt hér inntökupróf til að nema við háskólann ytra.

30. október: Heimsótti Grímsey ásamt Höllu Björk Reynisdóttur og Gunnari Gíslasyni þar sem rætt var við heimafólk.

30. október: Fagnaði með Björgunarsveitinni Súlum 20 ára afmæli sveitarinnar.

31. október: Tók þátt í lokakvöldi Dömulegra dekurdaga sem fram fór á Icelandair hóteli. Mjög áhrifaríkar frásagnir kvenna sem hafa barist við krabbamein.

1. nóvember: Átti virkilega góðan hádegisverðafund með fólki sem starfar að norðurslóðamálum á stofnunum á Borgum en þar er fyrir utan Háskólann á Akureyri fjöldi norðurslóðastofnanna. 


1. nóvember: Tók á móti góðum gesti í ráðhúsinu þegar Valgarður Baldvinsson leit við. 

1. nóvember: Átti fund með Róbert Frey Jónssyni frá Stefnu sem er að vinna að appi fyrir Akureyrarbæ.  

5. nóvember: Sat stjórnendafræðslu með stjórnendum Akureyrarbæjar.