Sameinaðir föllum vér?

Sameinaðir föllum vér?


Sameining og samstaða er yfirleitt talin til bóta. Slagorðið „sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér" tengjum við ósjálfrátt sögu Bandaríkjanna og Evrópu, hinna vestrænu lýðræðisríkja. Samstaðan styrkir lönd heillar álfu og sameiningarkrafturinn er ótvíræður. Það má segja um samstöðuna líkt og um trúna, að hún getur flutt fjöll.


Sameining og samruni stofnana og fyrirtækja verður oftar en ekki til þess að styrkja þau. Það hefur trúlega verið í þeim anda sem ríkisstjórn Íslands og Alþingi ákvaðu að ráðast í sameiningu sýslumannsembætta í landinu árið 2015.


Átti ekki örugglega að bæta þjónustuna við almenning, efla embættin og styrkja? Raunin hefur orðið allt önnur. Sýslumenn standa frammi fyrir ófremdarástandi og horfa nú hver á annan með undrunarsvip og spyrja: Er það niðurstaðan að sameinaðir föllum vér?

Sameiningunum áttu að fylgja , nægilegar fjárveitingar til afgreiðslu ótal málategunda, betri þjónustu, aukinnar tæknivæðingar, rafrænnar stjórnsýslu, eflingar „stjórnsýslumiðstöðva ríkisins í héraði" og yfirleitt alls kyns umbætur því sameining er jú af hinu góða. Sameinuð stöndum vér.
Komið hefur á daginn að ný sameinuð sýslumannsembætti eru stórlega vanfjármögnuð þrátt fyrir að litlar sem engar breytingar hafi orðið á verkefnum þeirra. Þetta hefur óhjákvæmilega leitt til skertrar þjónustu, styttingar opnunartíma, lengri málsmeðferðartíma og uppsagna starfsfólks. Þjónustan við almenning hefur versnað og starfsfólk sýslumannsembættanna veit varla í hvorn fótinn það á að stíga. Botninum virðist náð.


Í nýlegri úttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu sýslumannsembættanna eftir sameiningu kemur fram að ekki var nægilega vel staðið að fjárhagslegum undirbúningi breytinganna og innleiðing rafrænnar stjórnsýslu hafi verið hæg. Þá var embættunum gert að taka á sig hluta af halla eldri embætta fyrri ára og „vinna hann niður". Það er ógerlegt við núverandi aðstæður og hallarekstur sýslumannsembættanna er viðvarandi.


Í áliti meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að skilgreina þurfi þau verkefni sem embætti sýslumanna eigi að sinna og hvaða þjónustu eigi að veita borgurunum. Þjónustu sem í mörgum tilvikum muni ávallt krefjast nálægðar við borgarana. Einnig að fjármögnun embættanna þurfi að standa undir þessum verkefnum.


Að sjálfsögðu hefði fullnægjandi undirbúningsvinna átt að vera frumskilyrði fyrir sameiningu og forsvaranlegar áætlanir um fjármögnun hefðu skilyrðislaust átt að liggja fyrir áður en haldið var af stað í þessa vegferð. Þá verður að gera þá kröfu að opinber starfsemi sé fjármögnuð m.t.t. núverandi útgjaldaþarfar en ekki óvissu um þróun og framtíðar rafvæðingu verkefna.
Hvers eiga sýslumenn að gjalda? Staðreyndir málsins eru þessar: Beinar uppsagnir starfsfólks vegna rekstrarvanda, frestun nýráðninga við starfslok, þjónustuskerðing, styttri afgreiðslutími og almennt fjársvelti. Og nær engin ný verkefni hafa verið vistuð hjá embættunum eins að var stefnt.


Tímabært er að stjórnvöld opni augun og láti hendur standa fram úr ermum. Klára þarf sameiningu sýslumannsembættanna með viðeigandi fjárhagslegri endurskipulagningu, ítarlegri skilgreiningu á verkefnum og nauðsynlegum fjárveitingum til innleiðingar rafrænnar stjórnsýslu og annarra brýnna verkefna. Jafnframt að nýta þá fjárfestingu sem liggur í embættunum og það traust sem landsmenn bera til þeirra. Meira en helmingur landsmanna nýtur þjónustu embættanna ár hvert. Vel má vera að rafræn stjórnsýsla hljómi eins og einhver töfralausn árið 2019 en það vita þeir sem reynt hafa að hún krefst fjármagns, vilja og frumkvæðis..
Tökum höndum saman og klárum málið því sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér!