Opnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi

Félags- barnamálaráðherra Ásmundur Daðason, lögreglustjórinn á Norðurlandi. Aðrir góðir gestir.

Opnun á þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi er stór og mikilvægur áfangi fyrir íbúa á Norðurlandi. Auðvitað ættu þolendamiðstöðvar að vera í öllum fjórðungum því allar rannsóknir sýna að afleiðingar ofbeldis eru oftar en ekki hörmulegar.

Fyrir þolendur ofbeldis skiptir það máli að fá faglega þjónustu heima í héraði eða að geta farið út fyrir bæjarmörkin. Það er táknrænt að hér sé þolendamiðstöðin staðsett í þessu gamla og fallega húsi, Gudmands Minde, sem er eitt elsta hús Akureyrar og var byggt sem spítali.

Við eigum að styðja við þolendur á þann hátt sem við getum. Nú liggur fyrir metnaðarfull aðgerðaráætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og gildir hún til ársins 2022. Það var mikilvægt skref að stíga að samþykkja slíka áætlun og og ég vona sá þáttur aðgerðaráætlunarinnar er snýr að fræðslu og forvörnum, muni verða til þess að við munum sjá heilbrigðara og upplýstara samfélag. Sem dæmi um fræðslu og forvörn vil ég nefna kennslu um kynheilbrigði og kynhegðun og eflingu hennar í grunn- og framhaldsskólum. Það muni stuðla að því einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og haturstals, sem og eigin framkomu á netmiðlum og birtingu myndefnis – svo ég vitni nú beint í áætlunina. Skilaboðin sem ungmenni fá í dag í þessum efnum geta verið eins og þið vitið, afar brengluð og ef við fræðum þau ekki þá getur verið erfitt að vita hvað er rétt og hvað er rangt og hvenær eru persónuleg mörk ekki virt.

Hlutirnir taka oft tíma, það vitum við, og þess vegna langar mig að þakka ráðherrunum tveimur, fyrir að styðja við bakið á þessu verkefni sem hefur komist til framkvæmdar á . Það skiptir öllu máli að hafa kröftugan stuðning, annars gerist harla lítið. Ég vil líka þakka Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi fyrir að drífa verkefnið áfram af krafti og að síðustu vil ég einfaldlega þakka öllum sem að þessu hafa komið.

Nú er það einfaldlega okkar hérna fyrir norðan að hafa allt klárt í þessu fallega húsi sem nefnist Gudmans Minde eða Gamli spítali í daglegu tali, og hýsir starfsemi Aflsins, og vera með á hreinu þá ferla sem þurfa að virka til þess að geta veitt faglega þjónustu.

Ég segi til hamingju með daginn og megi þessi þjónusta nýtast öllum þeim sem á þurfa halda við að takast á við oft hörmulegar afleiðingar ofbeldis.