Menningarhúsadagurinn

Kæru gestir, sem hingað eru komnir til að ræða vægi menningarhúsa fyrir samfélög og að kynna sér fallega menningarhúsið okkar – Hof sem vígt var í ágúst 2010.

Það stundum sagt, að þegar stórt sé spurt þá verði fátt um svör. Það á ekki við þegar rætt er um vægi menningarhúsa fyrir samfélög. Svörin við þessari spurningu – eða kannski réttara sagt sviðsmyndirnar sem hægt er að teikna upp og sýna vægið eru fjölmargar og ólíkar.


Að láta þetta hús verða að veruleika var ekki átakalaust. Ég ætla ekki að rekja sérstaklega söguna með breyttar forsendur, fjármögnun og útlit hússins. En til að gera langa sögu stutta þá auðnaðist okkur að kveða niður gagnrýnisraddir. Og það gerðist nokku hratt og örugglega eftir að húsið var opnað því að markviss var unnið með að bjóða hingað inn alla hópa samfélagsins. Húsið hefur aldrei bara verið hugsað fyrir „alla hina" heldur einmitt fyrir „okkur öll". Við eigum menningarhúsið Hof saman.
Menningarhús er lifandi afl sem hefur allar tíðir. Það er fortíðin og nútíðin en fyrst og fremst framtíðin. Það er fortíðin að því leyti að það hefur rætur við söguna með ýmiskonar viðburðum, því við viljum vita hvaðan við komum. Nútíðin er t.d. það að að við njótum þess að vera saman hér í dag til að ræða vægi menningarhúsa og framtíðin er allt það metnaðarfulla og spennandi sem á eftir að verða skapað hér af listafólki framtíðarinnar, því menningarhús eru jú uppeldisstöðvar fyrir unga fólkið sem á eftir að sigra heiminn.


Menningarhús er líka ákveðið sameiningartákn. Staður þar sem ekki bara er framin list heldur einnig vettvangur þar sem á sér stað samtal um málefni líðandi stundar. Þar sem allir eru velkomnir og jafn réttháir. Við fræðumst og deilum skoðunum. Stundum erum við mörg sem þurfum að tjá okkur. En stundum fá – það getur einfaldlega farið eftir málefninu. Menningarhús getur verið gerendi í að opna samtal og halda því á lofti án þess endilega að hafa skoðun sjálft, heldur skapar það vettvanginn þannig að sem flestar raddir heyrast.


Að síðustu vil ég nefna sviðsmyndina sem tengist bæði beint og óbeint ferðaþjónustu og vægi menningarhúsa. Það fylgir því mikið stolt að segja gestum, bæði innlendum og erlendum frá menningarhúsinu Hofi í þessu 19 þúsund manna samfélagi og því metnaðarfulla starfi sem hér fer fram. Hús sem þetta getur auðveldlega verið einn þeirra segla, sem dregur að ferðamenn og við eigum að vera óhrædd við að búa til vöru sem vekur athygli á húsinu. Fólk hefur áhuga á fallegum arkitektúr og hví skyldi það ekki viljað njóta hans hér eins og annarsstaðar í veröldinni? Slíkur áhugi getur undið upp á sig og húsið og aðstaðan spyrjast út og líkurnar á að vekja athygli þeirra sem skipuleggja ráðstefnur vaknar. Það er leið sem við eigum einnig að leggja áherslu á enda hefur bærinn upp á alla aðra þjónustu að bjóða sem fullkomnar það pússluspil sem ein ráðstefna felur í sér.


Ég þakka fyrir mig og óska ykkur árangursríks samtals um menningarhús og hvað við getum lært hvert af öðru til að gera enn betur.