Ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi

Ávarp flutt á dagskrá sem fram fór á Ráðhústorgi þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu frá Randers, vinabæ okkar í Danmörku.

Efnið getur hafa breyst í flutningi.

Komið þið sæl öll.

Ég vil byrja á að þakka Helga Jóhannessyni konsúli Dana á Akureyri fyrir að afhenda okkur bæjarbúum formlega þetta fallega jólatré sem er komið alla leið frá Randers vinabæ okkar í Danmörku. Það er mikilvægt að halda í vinasamband á táknrænan hátt, líkt og gert er hér og það er af miklu stolti sem gjöfinni er haganlega komið fyrir, ljósum skreytt hér á Ráðhústorgi af starfsfólki umhverfismiðstöðvarinnar. Ég hitti fyrir skömmu Ege Egesborg nýjan sendiherra Dana á Íslandi og bið fyrir bestu kveðjur og þakkir til hennar frá okkur hér á Akureyri. Vonandi getur hún verið með okkur á næsta ári.

Orðið vinasamband er gott orð – bæði sem stakt en einnig ef við skoðum það sem tvo hluta – þ.e. vina og samband. Nú þegar við erum að sigla inn í desembermánuð með öllu því sem honum fylgir, þá er mikilvægt að við náum að staldra svolítið við og skoða hvað það er sem gefur okkur virkilega gildi og nærir hjartað. Er það ekki einna helst að eiga samskipti og hafa samband við fjölskyldu og vini, gera eitthvað skemmtilegt saman sem fær okkur til að njóta, hlægja og brosa? Ég veit að desembermánuði getur fylgt álag, það er jú að ýmsu að huga og listinn í exelskjalinu getur verið langur en við skulum gera okkar besta til að forgangsraða og njóta einföldu hlutanna í kringum okkur. Gönguferðir um bæinn þar sem jólaskreytingar eru skoðaðar, miðbæjarheimsókn með innliti á kaffihús eða taka með kakó á brúsa og tylla sér á bekki hér á torginu, heimsókn á Amtsbókasafnið, jólasýningu Minjasafnsins, grípa snjóþotuna með í jólasveinabrekkuna eða horfa saman á sígilda jólamynd.

Það er hægt að telja endalaust upp, munum bara að það er ekki magnið sem telur heldur gæðin. Jólaskapið kemur ekki með verðmiðanum á því sem við gerum, heldur ákveðinni stemmningu sem kveikir þessa hlýju tilfinningu í hjartanu sem svo notaleg.

Mig langar líka að nefna stuttlega að í dag er síðasti dagurinn í evrópsku Nýtnivikunnar sem Akureyrarbæ tekur þátt í í fyrsta skipti og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs, m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta og stuðla almennt
að því að hlutir öðlist framhaldslíf. Höfum þetta líka í huga í desember, það er hugurinn sem gildir og við getum lagt okkar af mörkum með því að hafa þetta í huga.

Að þessu sögðu er rétt að vinda sé í mál málanna sem er að kveikja á ljósunum á jólatrénu. Við höfum haft þann háttinn á að biðja ungmenni sem hefur norrænar tengingar til að taka þetta skemmtilega verk að sér að ýta á ljósatakkann og við ætlum að hjálpa til með því að telja niður. Mig langar að biðja hina þriggja á gömlu Svölu Sandgren til að koma á sviðið og henni til halds og trausts er móðir hennar Hrafnhildur Marteinsdóttir.