Karlmenn og krabbamein, málþing í Hofi

Kæru gestir, ég vil byrja á að þakka fyrir að hafa verið boðið að tala við þetta tækifæri. Krabbameinsrannsóknir og barátta gegn krabbameini er mér mikið hjartans mál. Hér tala ég ekki aðeins sem bæjarstjórinn á Akureyri heldur líka sem eiginkona, vinkona og frænka sem hef misst ástvin úr krabbameini eins og því miður örugglega einhverjir hér inni.

Ég bjó á Vestfjörðum áður en ég fluttist hingað norður og þar er til siðs að tala umbúðalaust. Það vil ég gera við þetta tækifæri.
Mig langar til velta því upp spurningunni hvers vegna það virðist verða erfiðara að fá karlmenn til að fara í krabbameinsskoðun en konur? Þó svo að vitunarvakning hafi orðið á síðustu misserum.

Fyrir konur er þetta einfaldlega hluti af því huga að heilsunni, líkt og að fara þarf reglulega til tannlæknis. Konur ræða sín á milli um krabbameinsskoðun. Konur ræða alveg um það hversu óþægilegt það er þegar brjóstin eru klemmd í skoðunartækinu og hversu vont það er fara í krabbameinsskoðun á legi!
Á sama tíma virðist mér sem krabbameinsskoðun sé svolítið feimnismál hjá karlmönnum sem þeir kjósa síður að fitja upp á við félaga sína, betra að ræða bara um boltann. Ef þeim er illt í typpinu, ef það kemur blóð með hægðum og ef þá grunar að það gæti mögulega verið eitthvað sem þarf að skoða. Þá er það allt of oft þagað í hel. Elskur, gerið eitthvað strax í ykkar málum!

Ég spyr mig, getur verið að karlmenn upplifi krabbameinsskoðanir sem einhverskonar vanvirðingu við sjálfið og stoltið? Sem innrás á þeirra einkastaði? En á sama tíma erum við konurnar ef til vill vanari því að athyglin beinist að okkar einkastöðum eftir að hafa gengið með og átt börn og farið í tugi kvenskoðana?
Við þurfum að taka höndum saman um að breyta þessari hræðslu í viðhorfið um að það sé eðlilegasti hlutur í heimi að fara í rannsókn.
Við þekkjum öll þessa staðreynd. Krabbamein er dauðans alvara og verður aldrei sigrað með karlmennsku, feimni eða hunsun.
Það er ekki að ástæðulausu að búið er að afhenda öllum þingmönnum áskorun um að styðja við rannsóknir sem snúast um snemmgreiningu á breytingum í erfðamengi, þannig að hægt verði að finna mein í blóði áður en það finnst í líffæri.

Kæru karlmenn, þið þurfið að komast á þann stað að það sé ekki í boði að fara ekki í krabbameinsskoðun, það sé hreinlega hallærislegt að láta ekki tékka á þessu. Ég bið ykkur að ræða þetta opinskátt rétt eins og annað sem tilheyrir daglegu lífi. Ykkur konur, bið ég um að vera duglegar við að hjálpa til við að halda umræðunni á lofti og hvetja ykkar menn til að fara í skoðun.

Ég vil sömuleiðis þakka Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis fyrir að standa fyrir þessu merkilega málþingi sem á erindi við okkur öll.
Að endingu hvet ég alla til að styðja við Hrútinn og hvetja alla karlmenn hér inni til dáða. Þið eruð flottastir.