Karlar og krabbamein, ávarp í Hofi

 Kæra samkoma,

Það er mér mikill heiður að fá að taka hér til máls, því að þetta er mér mikið hjartans mál. Það eru ekki mörg ár síðan að árveknisátakið „karlar og krabbamein" hófst en það hefur náð að festa sig í sessi, vegna þess að í átakinu, er þetta grafalvarlega málefni nálgast af mikilli snilld.

Áhersla er lög á að hafa markaðsefnið skemmtilegt og skondið og fá þekkta karlmenn á öllum aldri úr samfélaginu, til þess að taka þátt. Sjónvarpsauglýsingarnar fyrir Mottumars kalla fram bros og hláturroku. Enda þarf oftar en ekki að hafa húmor ráðandi í málefnum sem varða dauðans alvöru. Laddi, sem eitt sinn söng um Súperman, syngur nú um Mottumars og hvetur karla til að klóra sér í pungnum.

Það er líka skemmtilegt hvernig íslenska tungan er notuð til að ná til fólks. Motta er tilvísun í yfirvaraskegg, sem ég er reyndar fegin að eiginmaðurinn minn hafi ekki tileinkað sér (ég hef nú reyndar ekki séð hann í viku svo og miðað við hraða skeggvaxtar hjá honum gæti hann komið heim eins og Salvador Dali!), áheitasöfnunin Aur fyrir eista og svo er það hrúturinn, sem táknmynd fyrir karlmann, hrjúfur og tignarlegur á yfirborðinu en undir niðri er mjúka hliðin. Þetta er góð lýsingin á karlmönnunum okkar.

Já, það er gott að nálgast hlutina með jákvæði og geta brosað. En við erum nú samt hingað komin vegna þess að málefnið er alvarlegt. Okkur getur þótt skondið að þukla gervipunginn, sem ætlaður er til að æfa leit að meini og brosað að þessari eftirlíkingu sem þið hafið einmitt séð hér í dag, en við verðum í lok dags að taka þetta alvarlega.
Staðreyndin er sú að á hverju ári greinast um 210 karlar á Íslandi með blöðruhálskirtils-krabbamein og ég tel afar líklegt, að svo gott sem allir hér inni þekki einhvern eða fjölskyldu einhvers, sem hefur þurft að glíma við þennan sjúkdóm. Í hinum fullkomna heimi þá væri þetta mein ekki til eða jafnvel uppgötvað og læknað samdægurs með einhverri ofurtækni.

En hvað getum við gert? Í fyrsta lagi þurfum við að setja heilsu og vellíðan í fyrsta sæti og fara vel með okkur, eins einfalt og það nú hljómar. Við þurfum að vera meðvituð um, að ef minnsti grunur er um einhver einkenni sjúkdómsins, þá verður að leita strax til læknis. Makar þeirra manna sem hafa þennan grun verða að styðja við bakið á sínum mönnum. Það eru aldrei auðveld spor að fá niðurstöður úr prófunum en það er alltaf betra en að gera ekki neitt. Ég segi: Aldrei að gera ekki neitt!

Ég hvet ykkur kæru karlmenn og aðrir gestir til að hlýða á fræðsluna sem hér fer fram á eftir og vera með athyglina í lagi, því að ábyrgðin liggur hjá okkur öllum.