Glerárskóli 110 ára

Það viðraði ekki vel fyrir skrúðgöngu í afmælisviku Glerárskóla en starfsfólk og nemendur létu það e…
Það viðraði ekki vel fyrir skrúðgöngu í afmælisviku Glerárskóla en starfsfólk og nemendur létu það ekkert á sig fá.

Grein í skólablað Glerárskóla í tilefni af 110 ára afmæli skólans.

Kæru nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn Glerárskóla.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að fyrsta skólahúsið í Glerárþori, Ós, var byggt. Á þeim tíma var Þorpið til að mynda ekki hluti af Akureyrarkaupstað. Frá Ósi lá leiðin í Árholt og svo í þetta hús hér sem var fullbyggt árið 1996.

Það er mjög áhugavert að skoða sögu þessa skóla og hvernig hann varð til. Að ímynda sér upphafið þegar skólinn var með eina kennslustofu fyrir 18 nemendur – þetta finnst okkur skrýtið nú í dag því að flest þekkjum við frekar fjölmenna skóla, þar sem eru margar skólastofur og ýmis konar sérrými fyrir þá fjölbreyttu þjónustu sem veitt er í skólum.

Við eigum þessu kraftmikla fólki sem kom skólanum á laggirnar á sínum tíma mikið að þakka því að mikilvægi skóla er ekki síðra í dag en það var á þeim tíma. Að hafa skóla í hverfinu sínu skiptir miklu máli og má kannski líkja skóla við einhvers konar lím sem heldur saman fjölbreyttu, fræðandi, skemmtilegu og kraftmiklu lífi, þar sem koma saman börn, unglingar og fullorðnir. Ekki má gleyma að límið nær líka til allra þeirra sem tengjast nemendum í daglegu lífi, s.s. foreldra og systkina, ömmu og afa. Þetta er í raun eins og ein risastór fjölskylda sem hittist nánast daglega yfir vetrarmánuðina. Líkt og er í öllum fjölskyldum þá eru góðir dagar en líka erfiðir. Nemendur og kennarar gleðjast saman þegar vel gengur og árangur næst, hvort sem það snýst um smáa eða stóra sigra. Nemendur og kennarar standa líka saman þegar upp koma upp erfiðir hlutir sem þarf að leysa á farsælan hátt. Allir reyna að leggja sig fram við að gera sitt besta svo að öllum líði vel.

Skólinn stækkaði og dafnaði eftir því sem fjölgaði í hverfinu og hér er aldeilis ekki bara lært af bókinni heldur er einnig mikið íþróttastarf sem fram fer í íþróttahúsinu og sundlauginni. Framundan eru líka spennandi tímar, nú er á teikniborðinu að byggja leikskóla við skólann sem styrkir enn frekar við flæðið á milli leik- og grunnskóla.

Skóli er svo miklu meira en bara hús og það sýnir einmitt þetta afmæli sem nú er fagnað – við erum ekki að fagna húsi sem er 110 ára gamalt heldur starfi sem nær yfir eina öld! Nú þegar við lifum og njótum á árinu 2018 getum við öll verið mjög stolt af Glerárskóla og starfinu sem hér er unnið. Ég færi ykkur mínar bestu afmælisóskir og megi starfið hér í Glerárskóla halda áfram að vaxa og dafna.