Formannafundur ÍBA

Ávarp flutt á formannafundi ÍBA.

Efnið getur hafa tekið breytingum í flutningi.

 

Kæru gestir.

Eitt af því sem gerir bæinn okkar Akureyri að því lífsgæða sveitarfélagi sem það er, er sú mikla gróska og sá metnaður sem lagður hefur verið í íþróttamál. Það er stundum þreyttur frasi þegar talað er um að "það sé eitthvað sé fyrir alla" en að þessu sinni er það einfaldlega þannig – hér er fjölbreytnin þegar kemur að möguleikum á ástundun íþrótta einfaldlega framúrskarandi.

Fyrr á þessu ári var ný stefna Akureyrarbæjar og ÍBA í íþróttamálum til ársins 2022 samþykkt, þar sem áhersla er lögð á almenningsíþróttir, lýðheilsumál, samvinnu íþróttafélaga, íþróttaaðstöðu, afreksstarf, samspil íþrótta og skóla og íþróttir og ferðaþjónustu. Þetta er spennandi verkefni sem við eigum við eigum fyrir höndum enda framtíðarsýnin okkar stór.

Til þess að ná þeirri sýn sem við viljum vinna eftir þá ætlum við m.a. að gera iðkun íþrótta að sjálfsögðum lífsstíl bæjarbúa, við ætlum að reka færri, stærri og faglegri fjölgreinafélög, við ætlum að vinna að uppbyggingu mannvirkja samkvæmt langtíma þarfnagreiningu félaga og skóla og forgangsraða í samvinnu ÍBA og Akureyrarbæjar og að auka vægi íþrótta á öllum stigum skólakerfisins ásamt samþættingu skóla og íþrótta.

Mig langar líka að nefna hversu ánægjulegt það er hversu vinsæll bærinn er þegar kemur að árlegum íþróttatengdum viðburðum – hér er allt frá gamalgrónum árlegum viðburðum á borð við Andrésar Andar leikana og Hængsmótsins í boccia til nýrri viðburða svo sem fjallahlaupsins Súlur Vertical. Það má segja að íþróttir og ferðaþjónusta taki þarna höndum saman um að bjóða allt það besta. Höldum áfram á þessari góðu samvinnubraut.

Að síðustu langar mig að deila með ykkur þeirri staðreynd að undirrituð hefur sjálf átt spretti bæði á körfuboltavellinum og í frjálsum íþróttum en báðar þessar íþróttir voru mikið stundaðar í Hólminum þar sem ég ólst upp og ég á meira að segja nokkra verðlaunapeninga sem eru auðvitað til sýnis heima í Stóragerðinu. Gott að kíkja reglulega á þá og rifja upp, ekki bara árangurinn sem varð til þess að ég fékk þá um hálsinn heldur líka keppnisskapið sem skilaði þeim í hús og er alveg nauðsynlegt að hafa dass af slíku í daglegum verkefnum. Ég ætla að enda þetta á setningu sem mun seint fá verðlaun Árnastofnunar fyrir fallega íslensku en ég veit að hún skilst og á afar vel við hér á formannafundi ÍBA – ég segi, Verum keppnis!

Takk fyrir og njótið kvöldsins.