Afmælishátíð lífeyrissjóðanna

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissj…
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Kæru Akureyringar,
góðir gestir.

Undir lok 19. aldar voru mikil harðindaár á Norðurlandi og fólk flýði unnvörpum til vesturheims þar sem það hugðist búa sér betri framtíð, fjarri hinu „volaða landi" eins og séra Matthías kallaði landið okkar í kvæði frá árinu 1888.

Þá hafði fólk enga afkomutryggingu, engar bætur af neinu tagi og aðeins æðstu embættismenn nutu lífeyris í ellinni. Þá réðu náttúran og veðurfarið mestu um það hvernig fólki vegnaði í lífsbaráttunni á Íslandi.

Landslagið er góðu heilli gjörbreytt núna og við erum saman komin hér í dag til að fagna 50 ára afmæli lífeyrissjóða á almennum markaði. Og það er ærin ástæða til að fagna.

 

Ungt fólk hefur yfirleitt ekki miklar áhyggjur af fjárhagslegri afkomu sinni í ellinni - það vill fyrst og fremst lifa og njóta. Síðar á ævinni förum við hins vegar öll óhjákvæmilega að leiða hugann að því hvað um okkur verður þegar við hættum að vinna.

Munum við eiga þak yfir höfuðið? Getum við leyft okkur ýmsan þann munað sem vinnandi fólki þykir sjálfsagður? Getum við ferðast til útlanda? Getum við rekið bifreið eða gefið góðar jólagjafir? Munum við eiga fyrir mat? Hvernig höfum við varið ævinni? Hvert fór tíminn?

Já, fólk sem er komið um miðjan aldur, áttar sig yfirleitt á því að tíminn er það dýrmætasta sem við eigum. Tíminn kemur aldrei til baka, tíminn verður ekki ávaxtaður eða endurunninn - hann týnist bara, eins og Bjartmar Guðlaugsson sagði í vinsælu dægurlagi.

Þess vegna er svo mikilvægt að nýta tímann til að leggja til efri áranna - búa til sparnað sem nýtist þegar fólk er sest í helgan stein.

Og þess vegna er svo mikilvægt að fólk sem býr saman í félagi - sam-félagi - geri með sér sáttmála um það að þegar tíminn týnist eða er liðinn hjá - þegar starfsævinni lýkur - þá eigi allir eitthvað í sjóðum.

Hvort heldur sem fólki hefur tekist að ávaxta sitt pund eða ekki - þá er það að mínu mati einn af hornsteinum nútímasamfélags að allur almenningur eigi sinn lífeyri, geti haldið fullri reisn og þurfi ekki að vera upp á aðra kominn.

Ekkert kemur af sjálfu sér. Baráttan fyrir bættum kjörum kvenna og karla kostaði blóð, svita og tár. Og í dag skulum við hugsa með hlýrri þökk til þeirra sem stóðu í fylkingarbrjósti og leiddu smám saman í lög, með þýðingarmiklum skrefum í rétta átt, skyldusparnað alls launafólks.
Þannig er öllu launafólki, hvar í sveit sem það er sett - starfsfólki hins opinbera, starfsfólki einkafyrirtækja eða sjálfstæðum atvinnurekendum - nú gert að greiða í lífeyrissjóði til að tryggja því lágmarks lífeyrisréttindi þegar starfsævinni lýkur, hvort sem það er vegna aldurs eða einhverra áfalla í lífsins ólgu sjó. Um þetta hefur fólk ekkert val, enda allsendis óvíst að allir væru það forsjálir að safna sér fé til efri áranna.

Þannig er skynsemin látin ráða för. Allir greiða hluta af launum sínum í lífeyrissjóði og atvinnurekendur greiða mótframlag. Hlutverk lífeyrissjóðanna er síðan að taka við þessum iðgjöldum, ávaxta þau og greiða út þegar þörf krefur eða lífeyrisaldri hefur verið náð.

 

Ég hugsa stundum um það hver urðu afdrif eldra fólks í gamla daga þegar það gat ekki lengur unnið. Fæstir áttu úr nokkrum sjóðum að spila, fólkið settist upp hjá afkomendum sínum, lagðist gjarnan í kör (sem kallað var), lá bara og beið þess sem verða vildi, og átti allt sitt undir gæsku annarra.

Eina tryggingin fyrir afkomu í ellinni var að eiga góð börn og barnlausir bjuggu oft við afar harðan kost, voru hreinlega settir út á guð og gaddinn. Og þannig er þetta því miður ennþá hjá mörgum fátækari þjóðum þessa heims.

Prestar og aðrir embættismenn voru þeir fyrstu sem nutu lífeyrisréttinda á Íslandi sem þá voru greidd beint úr ríkissjóði. Skáldinu, mannvininum og fyrsta heiðursborgara Akureyrar, séra Matthíasi Jochumssyni, hefur því trúlega ekki þótt hugmyndin um lífeyrissjóði mjög framandi.

Harðindavorið 1888 horfði hann upp á hungurkvalir fátæks fólks nær alla daga og orti þá kvæðið um hið „volaða land, horsælu hérvistar slóðir." Þá lá hafís við landsteinana um hásumar og menn gengu um svangir dag eftir dag. Matthías segir sjálfur að sér hafi legið við „brjáli" að þurfa að horfa upp á þetta.

Og kannski hefur hann haft hugmyndina um að almenningi væri tryggð lágmarks afkoma og lífeyrir á bak við eyrað þegar hann orti um mikilvægi þess að fólk stæði saman og tryggði með samstöðunni velferð heildarinnar, höfðingja jafnt sem smælingja.

Matthías orti:

Græðum saman mein og mein,
metumst ei við grannann,
fellum saman stein við stein,
styðjum hverjir annan;
plöntum, vökvum rein við rein,
ræktin skapar framann.
Hvað má höndin ein og ein?
Allir leggi saman!


Ég óska landsmönnum öllum til hamingju með daginn. 50 ár eru ekki svo langur tími og kannski ótrúlegt að ekki sé lengra liðið síðan grundvöllur núverandi lífeyrissjóðakerfis á Íslandi var lagður. Það er gott kerfi en alltaf má gera gott betra. Við þurfum að standa traustan vörð um rétt launþega til lífeyris og gæta þess að ávallt sé vel farið með sameiginlega sjóði okkar.

Ég óska lífeyrissjóðum landsins velfarnaðar. Til hamingju með daginn, Íslendingar.

Takk fyrir.