100 ára afmælismót Skákfélags Akureyrar

Kæru gestir.

Heil öld er langur tími, ekki síst í lífi félags á borð við Skákfélag Akureyrar, sem er áhugafélag er byggir á því að einstaklingar sýni frumkvæði og kraft við að halda úti starfsemi, án þess að fá mikið annað að launum en ánægjuna.

Hvers vegna vegna leggur fólk þetta á sig með þeim árangri að nú stöndum við hér og fögnum aldarafmæli? Jú, vegna þess að það er ástríða fyrir íþróttinni og / eða listinni að tefla. Skák er í eðli sínu ótrúlega magnað fyrirbæri. Fólk hefur skiptar skoðanir á því hvort þetta sé list eða íþrótt – ég ætla ekki að fara sérstaklega út í þá sálma en ég ætla að leyfa mér að halda því fram, að eðli skáklistarinnar hafi sjaldan eða aldrei átt jafn mikið erindi við okkur og nú. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að við lifum í sífellt hraðari samfélagi, þar sem athyglisspönnin verður sífellt styttri og þá er mikilvægt að vinna markvisst með úthald og einbeitingu. Skákin vinnur með hvoru tveggja. Hún krefst þess að við setjumst niður. Við vitum ekki hversu lengi við munum þurfa að sitja við skákborðið og sýna úthald og einbeitingu. Það fer allt eftir því hversu vel við teflum. Ef við sýnum kænsku og teflum vel þá verða leikirnir ef til vill ekki margir. Ef við hins vegar náum ekki að stjórna huganum og einbeita okkur að skákinni og teikna upp sviðsmyndir að því hvaða leikir verða mögulegur í stöðunni – ja þá fer einfaldlega illa!

Þetta 100 ára afmælisbarn býður aldeilis til frábærrar veislu. Hér er brátt að hefjast eitt öflugasta skákmót sem nokkru sinni hefur verið haldið á Akureyri, með um 60 keppendur skráða til leiks, bæði Íslendinga og erlenda gesti. Þetta er ekki bara afmælismót heldur einnig minningarmót um Guðmund Arason skákfrömuð sem skákunnendur á Íslandi þekkja. Icelandic Open 2019 hefst í dag og stendur til 1. júní. Ég segi einfaldlega megi einbeitingin og úthaldið vera með ykkur og segi mótið hér með sett.