Samþykkt um starfslaun listamanna

1. gr.

Árlega skulu veitt úr Menningarsjóði Akureyrar starfslaun til listamanns/listamanna, sem eru með lögheimili á Akureyri, eftir því sem nánar er ákveðið í fjárhagsáætlun.

Stjórn Akureyrarstofu tekur ákvörðun um þann/þá sem starfslaunin hljóta.

2. gr.

Fyrirkomulag starfslauna skal ákveðið við fjárhagsáætlunargerð ár hvert sem og fjárhæð þeirra. Starfslaunin eru greidd án orlofsgreiðslu eða annarra launatengdra gjalda.

Starfslaunin eru í formi mánaðarlegra launagreiðslna frá Akureyrarbæ eða sem mánaðarlegar verktakagreiðslur sem greiddar eru út eftir á skv. samningi.

3. gr.

Markmiðið með starfslaunum listamanna er að sá/þeir sem þau hljóta geti helgað sig betur listsköpun sinni á tímabilinu og sinni ekki öðru starfi samhliða í meira en hálfri stöðu á starfslaunatímanum.

4. gr.

Að loknu starfsári skal listamaðurinn gera grein fyrir starfi sínu með greinargerð til stjórnar Akureyrarstofu og sýningu, flutningi eða upplestri á verki í frumflutningi eða frumbirtingu, allt eftir nánara samkomulagi við Akureyrarstofu hverju sinni. Listamaður fær ekki greitt fyrir flutning, upplestur eða sýningu verks skv. framangreindu en hann heldur höfundarrétti sínum óskertum.

5. gr.

Úthlutun starfslauna skal að jafnaði fara fram í aprílmánuði.

6. gr.

Reglur þessar taka gildi við samþykkt þeirra í bæjarstjórn.

Samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar 7. apríl 2009

Síðast uppfært 22. júní 2017