Hagnaður Norðurorku var 409 milljónir eftir skatta

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn föstudaginn 31. mars  2017. Eigendur félagsins eru sex sveitar­­félög, Þingeyjarsveit, Grýtubakkahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Eyjafjarðar­sveit, Akureyrarbær og Hörgársveit.

Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2016. Ársvelta samstæðunnar var 3,4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 409 milljónir króna eftir skatta og eigið fé  8,2 milljarðar króna. Á aðalfundinum í dag var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengir hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu.

Rekstur samstæðunnar var nokkuð í takt við áætlanir þrátt fyrir að kostnaður við borun heitavatnsholu að Botni hafi verið afskrifaður á árinu, alls 154 milljónir króna, þar sem borun varð árangurslaus.

Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir 8,2 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 63,3%. Norðurorka greiddi niður lán á liðnu ári um 318 milljónir króna. Stærstur hluti niðurgreiðslunnar er vegna lána í evrum. Veltufé frá rekstri var rúmlega 1,1 milljarður króna og handbært fé í árslok 1,3 milljarðar króna. Langtímaskuldir í árslok voru tæpir 4,2 milljarðar króna og lækkuðu aðeins milli ára. Fjárfesting samstæðunnar í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var rúmir 1,2 milljarðar króna sem var í takt við áætlanir. Fjárfestingar árið 2017 eru áætlaðar um 1,9 milljarðar króna, hitaveita 443 milljónir, fráveita 392 milljónir, vatnsveita 109 milljónir, rafveita 95 milljónir, Glerárvirkjun II 600 milljónir og til annarra rekstrarþátta 275 milljónir króna.

Ársskýrslu Norðurorku fyrir árið 2017 má finna hér.

Verkefni næstu ára eru stór og fjárfrek, einkum í fráveitu, hitaveitu og við skrifstofubyggingu að Rangárvöllum. Einnig eru framkvæmdir dótturfélagsins Fallorku verulegar við Glerárvirkjun II. Framkvæmdir við byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót eru hafnar og áætluð verklok seinni part árs 2018. Líkur eru á að Norðurorka nýti sér tækifæri til að virkja neysluvatn úr Vaðlaheiðargöngum á árinu 2017 í samstarfi við Vaðlaheiðargöng hf. Til aukinnar orkuöflunar í hitaveitu var á árinu 2016 boruð ný hola á svæðinu við Botn og Hrafnagil. Enginn árangur var af boruninni og var heildarkostnaður borverksins því afskrifaður í ársreikningi 2016. Þetta minnir okkur enn og aftur á að ekki er á vísan að róa í leit að jarðhitavatni í Eyjafirði. Næstu skref í aukningu orkumáttar hitaveitunnar munu snúa að aukinni flutningsgetu frá vinnslusvæðinu á Arnarnesi og borun nýrrar vinnsluholu þar, sem væri einskonar varahola, með núverandi holum sem talið er að þoli töluvert meiri vinnslu en nú er.

Þrátt fyrir að okkar bíði stór og mikil verkefni í framtíðinni er það von okkar að verðskrár fyrirtækisins verði áfram með þeim hagstæðustu þegar litið er til fyrirtækja í sambærilegum rekstri. Sem samfélagi og einstaklingum er okkur hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Mikið fjármagn þarf til að afla og vinna nýjar auðlindir og til uppbyggingar á kerfum til að auka flutningsgetu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kemur fram í verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Gunnar Gíslason. Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Helgi Jóhannesson forstjóri og Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður stjórnar. Þá fulltrúar hluthafa, Eiríkur Haukur Hauksson, Fjóla Valborg Stefánsdóttir, Jón Þór Benediktsson, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Dagbjört Jónsdóttir og Jón Stefánsson. Loks Berghildur Ása Ólafsdóttir ritari aðalfundar.

Frétt af heimasíðu Norðurorku.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan