Glæsilegur bæklingur um fuglaskoðun

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson.
Mynd: Eyþór Ingi Jónsson.

Fuglaskoðun á vaxandi vinsældum að fagna um allan heim og ekki síst í Norður-Evrópu. Nú er kominn út glæsilegur um 30 blaðsíðna bæklingur um fuglaskoðun í Eyjafirði. Bæklinginn prýða kort af öllum helstu fuglaskoðunarsvæðum við fjörðinn og ótal fallegar fuglamyndir sem Eyþór Ingi Jónsson hefur tekið. Textann rituðu Hjörleifur Hjartarson og Sverrir Thorstensen fuglaáhugamenn en María Helena Tryggvadóttir ritstýrði. Útgefendur eru fimm sveitarfélög við fjörðinn, með styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Eyjafjörður er með bestu svæðum til fuglaskoðunar á Íslandi. Óshólmar Eyjafjarðarár, Hörgár og Svarfaðardalsár eru í hópi tegundaríkustu fuglasvæða landsins. Í nyrstu byggð Íslands, Grímsey, á sjálfum heimskautsbaugnum, rísa einhver mikilfenglegustu fuglabjörg landsins. Þar er mikið lundavarp og næststærsta álkubyggð heimsins (næst á eftir Látrabjargi). Hrísey er einnig þekkt fyrir fjölskrúðugt fuglalíf og þar á rjúpan griðland. Við Eyjafjörð er að finna fjölbreytt úrval skipulagðra fuglaskoðunarsvæða með áningarstöðum, fræðsluskiltum fyrir náttúruskoðendur, stikuðum göngustígum og fuglaskoðunarhúsum.

Í bæklingnum eru upplýsingar um 11 fuglaskoðunarsvæði við Eyjafjörð. Fuglar eru að sjálfsögðu alls staðar en svæðin hafa þá sérstöðu að bjóða upp á sérstök skilyrði, gott aðgengi og í það minnsta lágmarks þjónustu s.s. bílastæði, göngustíga, skilti með upplýsingum um svæðið og/eða fuglaskoðunarhús. Aftast í bæklingnum er að finna töflu um þá fugla sem sjá má á hverju svæði fyrir sig.

Bæklingurinn hefur verið prentaður á ensku og er aðgengilegur bæði á ensku og íslensku á netinu. Hægt er að kaupa prentað eintak í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi og í húsi Hákarla Jörundar í Hrísey fyrir 1.000 kr.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan