Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030, ferli skipulagsvinnunnar

Vinna við Aðalskipulag Akureyrar2018-2030 hófst í byrjun árs 2016 með gerð skipulagslýsingar, sem var samþykkt til auglýsingar í febrúar af bæjarstjórn Akureyrar. Haldinn var almennur kynningarfundur um skipulagslýsinguna 3. mars 2016. Hún var síðan samþykkt í apríl 2016, en jafnframt hófst eiginleg vinna við aðalskipulagið.

 

Frá byrjun voru haldnir vinnufundir, kynningar- og samráðsfundir með ýmsum aðilum. Allar deildir Akureyrarbæjar komu með innlegg í skipulagsvinnunna, og haldnir fundir með öllum deildum og nefndum Akureyrar þar sem aðalskipulagsvinnan var kynnt og leitað eftir samráði. Haldnir voru kynningarfundir með samtökum atvinnulífsins, hverfisnefndum bæjarins, Norðurorku, Sjálfstæðisfélagi Akureyrar, Lionsklúbbnum Hæng, Rótaríklúbbi Akureyrar o.fl. Haldinn var opinn vinnufundur með íbúum Akureyrar, og þá voru m.a. haldnir samráðsfundir með Veðurstofunni, Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Kirkjugörðum Akureyrar, Vegagerðinni, Landsneti, Hafnasamlagi Norðurlands, Háskólanum á Akureyri, fulltrúum íþróttafélaga og fulltrúum atvinnulífsins.

Þegar drög að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 lágu fyrir í byrjun mars 2017  voru þau send til umsagnar nágrannasveitarfélaganna og ýmissa opinberra stofnana. Auk þess voru drögin birt á vefsíðu Akureyrarbæjar. Almennur kynningarfundur var haldinn í Hofi 28. mars, þar sem skipulagstjóri fór yfir helstu áherslur aðalskipulagsins. Fundurinn var öllum opinn og fundarsókn góð. Íbúum og öðrum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir á þessu stigi skipulagsvinnunnar. Alls bárust umsagnir frá 20 aðilum, og 45 ábendingar bárust frá 65 aðilum. Farið var yfir allar umsagnir og ábendingar í skipulagsráði, metið á hvaða viðbrögð þær kölluðu, og hvort þær leiddu til breytinga á aðalskipulagstillögunni. Ýmsar breytingar voru gerðar, og samantekt á umsögnum og viðbrögðum, ábendingum og viðbrögðum var birt á vefsíðu Akureyrar, ásamt uppfærðri greinargerð og uppdráttum eftir þessa yfirferð.

 

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum 5. september að auglýsa tillögu að Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 samkvæmt 31. grein skipulagslaga nr. 123/2010, og var erindi um það sent Skipulagsstofnun með greinargerð, umhverfisskýrslu og skipulagsuppdráttum og óskað eftir heimild til lögformlegrar auglýsingar. Þegar þar að kemur gefst öllum kostur á að skila inn athugasemdum við aðalskipulagið, og er athugasemdafrestur 6 vikur frá því að auglýsingin birtist. Þegar frestur til athugasemda er liðinn skulu skipulagsráð og bæjarstjórn fjalla um tillöguna á nýjan leik. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Þegar öllu þessu er lokið fer skipulagstillagan á borð Skipulagsstofnunar sem birtir auglýsingu um hana í b-deild Stjórnartíðinda, og öðlast hún þá lögformlegt gildi. Þetta er langur vegur, og er ekki að vænta að öllu verði lokið fyrr en um eða eftir áramótin.

 

Sviðsstjóri skipulagssviðs 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan