Yfirlit fasteignagjalda aðgengilegt

Innbærinn. Mynd: María H. Tryggvadóttir
Innbærinn. Mynd: María H. Tryggvadóttir

Álagningu fasteignagjalda er lokið og eru álagningarseðlar 2020 aðgengilegir bæjarbúum í þjónustugátt sveitarfélagsins og einnig á island.is.

Álagningarseðlarnir eru ekki sendir út á pappír og sparar það bæði fé og fyrirhöfn fyrir utan að vera mun umhverfisvænna. Eftir sem áður geta þeir sem vilja fengið álagningarseðilinn á pappír með því að fara í þjónustugáttina og óska eftir því.

Óbreytt álagningarprósenta

Álagningarprósenta fasteignaskatts er óbreytt á milli ára, 0,33% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis, 1,63% af öðru húsnæði og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa.

Heildarálagning fasteignagjalda ársins 2020 er rúmir 4 milljarðar króna, fasteignaskattur 2.404 milljónir króna, lóðarleiga 526 milljónir króna, vatnsgjald 334 milljónir króna, fráveitugjald 461 milljónir króna og sorphirðugjald 326 milljónir króna. Sorphirðugjald er lagt á 8.236 heimili sem er fjölgun um 194 heimili frá fyrra ári. Á árinu 2019 nam álagning fasteignagjalda samtals 3.732 milljónum króna.

Fleiri fá afslátt af fasteignaskatti

Bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt á fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk og hámarksfjárhæð afsláttar var aukin.

Nú liggur fyrir að 764 elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti 2020 og er heildarfjárhæð afsláttar tæplega 53 milljónir króna og meðaltalsfjárhæð afsláttar því 69.197 krónur. Að sjálfsögðu er afslátturinn mishár eftir tekjum en getur hæst farið í 117.700 krónur. 44 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar. Árið áður nutu 686 afsláttar frá fasteignaskatti og fjölgar því um 78 í hópnum. Heildarafslátturinn var tæpar 43 milljónir króna í fyrra og eykst því um 10 milljónir króna. Hámarksfjárhæð afsláttar á árinu 2019 var 107.000 krónur.

Afsláttur á fasteignaskatti er reiknaður út frá tekjum samkvæmt skattframtali 2019 og ekki þarf að sækja um þennan afslátt. Hægt er að sjá fjárhæð afsláttarins á álagningarseðli fasteignagjalda en þeir eru sem áður segir aðgengilegir í þjónustugáttinni hér á heimasíðunni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan