Virðum lóðarmörk

Hluti af hreinsunarátaki Akureyrarbæjar þetta sumarið er að tryggja að fólk og fyrirtæki virði lóðamörk og geymi ekki eigur sínar, tæki eða rusl sem fara ætti til förgunar eða endurvinnslu, utan lóðarmarka á landi sem sveitarfélagið hefur til umráða.

Í fyrsta áfanga þessa átaks verður sjónum beint að hluta Nesjahverfis. Á meðfylgjandi loftmynd má sjá lóðir við götur í hverfinu afmarkaðar með bláum línum og af myndinni má ljóst vera að ekki virða allir lóðarmörk.

Þeim vinsamlegu tilmælum er beint til fyrirtækja í Nesjahverfi að taka til á sínum lóðum og færa það sem tilheyrir rekstri þeirra af bæjarlandinu og inn á lóðir sínar.

Í samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra segir orðrétt: „Óheimilt er að skilja eftir á víðavangi, flytja, dreifa eða geyma lausamuni á þann hátt að valdið geti slysum, mengun eða lýti í umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti, svo sem bílflök, bílhluta, kerrur, vélar, tæki, landbúnaðarplast, byggingaefni, báta, skipsskrokka og annað sambærilegt“ og ennfremur: „Óheimilt er að geyma skráningarskyld ökutæki án skráningarmerkja, kerrur, tæki, vinnuvélar, báta eða aðra hluti á almennum bifreiðastæðum, á götum eða á almannafæri.“

Á næstu dögum munu bæjarstjóri og starfsmenn sveitarfélagsins heimsækja fyrirtæki í Nesjahverfi til að ræða málin og fylgja þessum tilmælum eftir.

Loftmynd á pdf-formi.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan