Vilt þú létta undir með fólki á flótta?

Ráðhús Akureyrarbæjar. Mynd: Ragnar Hólm.
Ráðhús Akureyrarbæjar. Mynd: Ragnar Hólm.

Akureyrarbær hefur lýst yfir stuðningi við úkraínsku þjóðina í þeim hörmungum sem nú dynja yfir eftir innrás Rússa. Sveitarfélagið lýsir sig reiðubúið til að taka á móti fólki frá Úkraínu.

Íbúar Akureyrar eru eindregið hvattir til að legga sitt af mörkum. Fyrst í stað er einkum brýnt að leysa þann húsnæðisvanda sem blasir við flóttafólkinu. Þeir sem hafa yfir að ráða viðeigandi húsnæði fyrir flóttafólk eru hvattir til að skrá eignir sínar á vefsíðu Fjölmenningarseturs þar sem er að finna þar til gert eyðublað og allar nánari upplýsingar.

Í samvinnu við Rauða krossinn og Fjölsmiðjuna aðstoðar Akureyrarbær það fólk sem hingað leitar vegna stríðsástandsins í Úkraínu. Fatnaði má koma til Rauða krossins á Akureyri.

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var fjallað um erindi frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu dagsett 9. mars 2022 þar sem leitað er eftir þátttöku sveitarfélaga í móttöku flóttafólks sem leitar hingað til lands vegna stríðsátaka.

Samþykkt var að bæjarráð tæki undir bókun velferðarráðs frá 16. mars sem er svohljóðandi:

Akureyrarbær hefur mikla reynslu af móttöku flóttamanna og hefur m.a. tekið þátt í verkefni á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis í að þróa samræmda móttöku flóttafólks á Íslandi. Fjöldi einstaklinga leitar nú skjóls vegna stríðsátaka og Akureyrarbær hefur lýst yfir stuðningi við úkraínsku þjóðina og er reiðubúinn að taka á móti fólki frá Úkraínu. Velferðarráð hvetur íbúa Akureyrar hafi þeir viðeigandi húsnæðisúrræði fyrir flóttafólk að senda umsókn á vefsíðuna https://mcc.is/is sem finna má á vef Fjölmenningarseturs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan