Vígsla á endurbættu Listasafni

Ávarp flutt við vígslu eftir endurbætur á Listasafninu á Akureyri.

Forsætisráðherra, ráðherra mennta- og menningarmála, safnstjóri, listafólk og aðrir góðir gestir.

Í sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason segir frá Kjarval þegar hann fór austur í Vaðlaheiði að mála bæinn. Þar segir: „Þetta var á kyrrum degi. Kaupstaðurinn speglaði sig í Pollinum og það strindi á snjó eftst í Hlíðarfjalli og Súlutindar vögguðu sér í hitamistri. Listmálarinn horfði lengi þögull á þessa mynd sem menn og náttúra höfðu unnið í sameiningu og sagði svo: þetta er of fagurt til að festa það á léreft."


Líklega hefur ekki hvarflað að Kjarval að tæpum 70 árum síðar yrðu myndir hans til sýnis í Mjólkurbúinu sem nú er nýuppgert glæsilegt listasafn í þessari fegurð sem hann lýsti. Ekki það að Akureyringar voru framsýnir og skynjuðu fljótt mikilvægi lista og menningar fyrir samfélagið og byrjuðu snemma að undirbúa stofnun á listasafni. Það sýndi stórhug og virðingu fyrir listunum. Þó svo að margt ætti etv að vera framar á forgangslista sveitarfélagsins í hugum sumra. En sveitarfélög þurfa að hugsa stórt og sýna hugrekki. Akureyringar hafa alltaf verið stórhuga. Það hefur aldrei vantað. Bygging Mjólkursamlagsins og Ketilhússins sýndi hugrekki þeirra á sínum tíma. Það sýndi sig líka þegar ákveðið var að opna listasafn í mjólkursamlaginu á 10. áratugnum og aftur nú með þessum glæsilegum endurbótum sem gerðar hafa verið á húsnæði safnsins. Akureyringar skilja nefnilega mikilvægi þess að búa vel að því fagra; listunum.


Vígslan hér í dag á stórbættum salarkynnum Listasafnsins á Akureyri er afar skýrt merki um það hvernig stjórnendur Akureyrarbæjar vilja búa að samfélagi sínu og þeim sem heimsækja bæinn. En ekki síst hvernig hlúa á að listunum. Listasafn hefur nefnilega margfalt meiri áhrif en það gerir við fyrstu sýn. Það er ekkert samfélag án lista. Það er ekkert frjótt mannlíf án lista. Listasafn er eins og hafnarmannvirki. Það er miðpunkturinn í uppbyggingu lista-og menningarlífs, umræðu og gagnrýnnar hugsunar.
Með endurbættu safni með nýjum rýmum þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja opnast nýir og spennandi möguleikar fyrir listafólk með fjölbreyttar sýningar af öllum gerðum. Og hvetur ekki síður yngra fólk til að sækja sér menntunar í listgreinum með sterkum fyrirmyndum í greininni.


Akureyri er suðurpottur menningar og lista á landsbyggðinni. Það er einstakt að sveitarfélag af þessari stærð státi af svona metnaðarfullu menningarlífi. Við erum stolt af okkar sterku stofnunum; Listasafninu, Amtsbókasafninu og Menningarfélagi Akureyrar með Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og menningarhúsinu Hofi, svo ekki sé nú minnst á grasrótina sem iðar af lífi. Þetta gerir Akureyri að eftirsóttum áfangastað ferðamanna en ekki síður búsetukosti.
Það er sömuleiðis mikilvægt að eiga þess kost að ala börnin okkar upp með listasafn í bakgarðinum, ekki aðeins með metnaðarfullum sýningum allt árið um kring, heldur einnig með safnastarfi sem talar til ungmenna og kallar þau til sín. Í því sambandi má nefna árlega sýningu Listasafnsins sem kallast: „Sköpun bernskunnar" og nú með því að bjóða upp á nýja og einstaka aðstöðu til listfræðslu. Allt þetta skiptir máli við menntun barnanna okkar.
Að hafa tengingar og sterkar rætur skiptir máli. Það er afar vel við hæfi að verk akureyrskra listamanna skipi heiðurssess á listasafninu við þessi tímamót og að sögunnar sé minnst með afgerandi hætti.


Listakonan Aðalheiðar Eysteinsdóttur er án efa ein af þekktari samtímalistamönnum landsins. Skúlptúrar hennar má finna víða og þekkjast um leið. Aðalheiður og Listasafnið eiga sér ríka sögu og í raun ekki bara Listasafnið heldur einnig Listagilið. En Aðalheiður hefur átt ríkan þátt í uppbyggingu þess og hefur látið sér annt um það starf sem hér hefur verið unnið.
Sigurðar Árna Sigurðssonar er fæddur á Akureyri og hóf sitt myndlistarnám hér við Myndlistarskólann. Hann á að baki glæsilegan feril í myndlistinni og starfar nú um heim allan. Hann er sömuleiðis einn af þekktustu samtímalistamönnum þjóðarinnar. Þrívíð verk Sigurðar, skúlptúrar og málverk eru einstök að formi og leika sér að ljósi og skuggum.
Tengingin við söguna skiptir okkur máli og það á vel við að setja upp sýninguna „Frá Kaupfélagsgili til Listagils" í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri og votta þannig fortíðinni virðingu en horfa á sama tíma til framtíðar með þetta krúnudjásn sem Listasafnið er.

Kæru gestir.
Ég óska okkur öllum til hamingju með þennan dag sem ber upp á Akureyrarvöku þegar við fögnum afmæli Akureyrarbæjar. Það er mikill sómi af Listasafninu á Akureyri og við getum öll verið einlæglega stolt af því.


Ég segi Listasafnið á Akureyri formlega opnað.