Vetrarfærð og lélegt skyggni - snjómokstur í gangi

Mikið hefur snjóað á Akureyri síðasta sólarhringinn samhliða hvössum vindi úr norðri. Fyrir vikið er færðin innanbæjar sums staðar þung, sérstaklega inni í hverfum, og er skyggni víða lélegt.

Snjómokstur hófst eldsnemma í morgun. Öll áhersla er á að halda helstu gangstígum, stofnbrautum og tengibrautum opnum. Aðstæður eru hins vegar erfiðar, mikil úrkoma og fok, þannig að færðin er fljót að spillast aftur og sést jafnvel ekki að mokað hafi verið fyrir fáeinum klukkutímum.

Á morgun spáir því að veðrið gangi niður og þá verður settur kraftur í að hreinsa sem allra mest af bænum fyrir helgina. Lögð verður áhersla á að gera gönguleiðir góðar og tryggja að fólk geti stundað útivist um helgina, enda er veðurspáin glæsileg. 

Hér má sjá helstu upplýsingar um vetrarþjónustu og vinnureglur í tengslum við snjómokstur. Í kortasjá Akureyrarbæjar eru einnig upplýsingar um fyrirkomulag snjómoksturs og með því að haka í vetrarþjónusta í stikunni til hægri má til dæmis sjá hvaða leiðir njóta forgangs.

Eins og íbúar á Akureyri vita þá tekur allt aðeins lengri tíma á svona dögum og þá er mikilvægt að hafa jákvæðni og þolinmæði að vopni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan