Verum heima um páskana

Sigurhæðir og Akureyrarkirkja. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Sigurhæðir og Akureyrarkirkja. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Mælst hefur verið til þess að fólk "ferðist innanhúss" um páskana, virði samkomubann og fjarlægðarmörk, til að koma í veg fyrir fleiri smit af Covid-19. Einnig er bent á að óþarfa ferðalög bjóða heim hættunni á slysum sem yrðu til að auka enn álagið á heilbrigðiskerfið.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, birti skeleggan pistil um málið á Facebooksíðu sinni í morgun:

Verum heima um páskana

Ástand mannlífs um allan heim er uggvænlegt um þessar mundir. Við þurfum að hlíta ráðum sérfræðinga og yfirvalda, sætta okkur skilyrðislaust við tímabundið samkomubann og virða reglur um að halda tveggja metra fjarlægð milli fólks.

Ég veit að ástandið tekur á taugarnar til lengdar en það er ekkert annað í stöðunni en að fara að tilmælum Sóttvarnalæknis og Landlæknis ef við ætlum að sigrast á þeirri óværu sem nú herjar á heimsbyggðina.

Sérfræðingarnir sem halda upplýsingafundi fyrir okkur klukkan tvö alla daga, hafa beðið fólk að vera heima um páskana. Auðvitað er það erfitt. Páskarnir hafa alltaf verið mikil ferða- og útivistarhelgi. En í ljósi aðstæðna eigum við að hlýða þessum fyrirmælum skilyrðislaust. Hér fyrir norðan er öll okkar frábæra þjónusta hjá sveitarfélaginu lokuð. Hlíðarfjall, sundlaugar og söfn.

Förum ekki í sumarhúsabyggðir um páskana, ferðumst ekki á milli landshluta. Ferðumst innanhúss, eins og þeir segja.

Það er til mikillar fyrirmyndar að verkalýðsfélagið Eining-Iðja hefur lokað orlofsbyggðinni að Illugastöðum í Fnjóskadal til 1. maí til að verða við tilmælum almannavarna. Þetta framtak Einingar-Iðju ætti að vera öllum öðrum til eftirbreytni. Að mínu mati eiga orlofshús eða orlofsíbúðir vítt og breitt um landið ekki að vera til útleigu eins og ástandið er núna.

Hlýðum fyrirmælum þeirra sem vita best. Verum heima um páskana og komið síðan fagnandi norður til okkar um leið og ástandið batnar.

Hlýjar kveðjur,
Ásthildur Sturludóttir
bæjarstjóri á Akureyri

Og nú seinnipartinn birti lögreglan á Norðurlandi eystra yfirlýsingu sama efnis frá Almannavarnanefnd umdæmisins á Facebook-síðu sinni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan