Veruleg tekjuaukning hjá PBI

Akureyrarbær hefur rekið Plastiðjuna Bjarg Iðjulund (PBI) frá árinu 1996. Fjölskyldusvið bæjarins annast daglegan rekstur og í ársskýrslu Akureyrarbæjar fyrir árið 2018 kemur fram að verkefnastaðan hefur verið góð og tekjur aukist um rúm 26% frá árinu 2016. Heildartekjur PBI árið 2018 voru 162,8 milljónir án vsk. en 128,8 miljónir árið 2016.

Framleiðsla á búfjármerkjum hefur gengið vel eins og undanfarin ár. Eftirspurn eftir raflagnaefni var stöðug og sala dýfðra kerta svo og útikerta árið 2018 var sú sama og á árinu 2017. Dreifing á kertum fer fram í góðu samstarfi við O.Johnson & Kaaber.

Tækjabúnaður PBI er margur kominn til ára sinna og var úr sér genginn. Endurbætur og viðhald véla og tækja eru mikilvægar svo hægt sé að halda starfseminni í fullum gangi. Vegna góðrar fjárhagsstöðu var farið í almennt viðhald á búnaði, keypt var leiserskurðarvél, tölvur og húsgögn.

Í árslok 2018 voru alls 20 starfsmenn á PBI í 17,90% stöðugildum. Markmiðið með starfsþjálfun og starfsendurhæfingu er að þjálfa einstaklinga til starfa og meta möguleika þeirra til vinnu á almennum vinnumarkaði. Í starfsendurhæfingu og starfsþjálfun voru 45 einstaklingar í tímabundinni ráðningu á árinu 2018, 18 karlar og 27 konur í 12 stöðugildum. Að lokinni starfsþjálfun fékk einn af ofangreindum einstaklingum starf á vegum Atvinnu með stuðningi (AMS), einn fékk ótímabundna ráðningu á PBI og einn fór yfir á örorkuvinnusamning. Fjórir einstaklingar hættu vegna veikinda eða annarra ástæðna. Á árinu 2018 voru alls 20 einstaklingar í ótímabundinni vinnu. Karlar voru 8 og konur 12, sem er einum færra en 2017.

Ársskýrslur Akureyrarbæjar er að finna hér á heimasíðunni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan