Verkföll BSRB - áhrif á þjónustu Akureyrarbæjar

Ferðir Strætisvagna Akureyrar munu að óbreyttu liggja niðri á mánudag og þriðjudag
Ferðir Strætisvagna Akureyrar munu að óbreyttu liggja niðri á mánudag og þriðjudag

Aðildarfélög BSRB, þar með stéttarfélagið Kjölur, hafa boðað til verkfallsaðgerða gagnvart ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg á mánudag og þriðjudag ef ekki nást samningar fyrir þann tíma.

Ljóst er að verkfallið mun óhjákvæmilega hafa nokkur áhrif á starfsemi og þjónustu Akureyrarbæjar, enda er mikilvægt að starfsfólk gangi ekki í störf þeirra sem eru í verkfalli. 

Ráðhús og skrifstofur

Ráðhúsið Geislagötu 9 verður lokað á mánudag og þriðjudag. Ekki verður svarað í síma 460-100. Almennt má reikna með að skrifstofur bæjarins verði lokaðar eða að símsvörun og afgreiðsla verði takmörkuð vegna verkfallsins. Vakin er athygli á beinum símum og netfangaskrá starfsmanna.

Minnt er á að hægt er að óska eftir og skila inn gögnum og sækja um ýmsa þjónustu og leyfi í þjónustugáttinni sem er aðgengileg á heimasíðu bæjarins.

Skrifstofa þjónustufulltrúa Akureyrarbæjar í Hrísey verður lokuð á mánudag og þriðjudag.

Stofnanir samfélagssviðs

Íþróttamannvirki sem bærinn á og rekur, þar með taldar sundlaugar og skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, verða lokuð á mánudag og þriðjudag. Íþróttahús sem um ræðir eru Íþróttamiðstöð Glerárskóla, Giljaskóla, íþróttahús Síðuskóla, Íþróttahöllin, íþróttamiðstöðin Hrísey.

Listasafnið verður lokað á mánudag og þriðjudag, en hins vegar verður tekið á móti skólahópum og þriðjudagsfyrirlesturinn verður á sínum stað. Kaffihúsið verður opið eins og vanalega.

Lokað verður á Punktinum og lítil starfsemi verður í félagsmiðstöðinni Víðilundi, en þó verður opnað þannig að fólk geti komið og spilað og hægt verður að kaupa hádegisverð.

Kvöldopnun í félagsmiðstöðvum unglinga verður ekki þessa daga.

Amtsbókasafnið verður opið eins og venjulega.

Almenningssamgöngur munu liggja niðri

Ef ekki takast samningar munu Strætisvagnar Akureyrar ekki keyra á mánudag og þriðjudag. Ferliþjónusta mun að óbreyttu liggja niðri, en sótt var um undanþágu vegna þeirrar þjónustu og er beðið eftir svari frá undanþágunefnd. Uppfært 8. mars: Undanþága fékkst fyrir einn bílstjóra sem sinnir ferliþjónustu, einungis til að tryggja nauðsynlega læknisþjónustu. 

Vegna verkfalls starfsfólks Umhverfismiðstöðvar má búast við að skerðing verði á snjómokstri. Eins mun verkfallið hafa áhrif á umhirðu og hreinsun bæjarins og verða ruslatunnur í bæjarlandinu ekki tæmdar á meðan verkfalli stendur. 

Lítil áhrif á skólana

Í grunnskólum verður skólahald samkvæmt stundaskrá og engin röskun þar á, ef frá er talið að sundkennsla fellur niður og engin íþróttakennsla verður í íþróttahúsi Glerárskóla, Giljaskóla, Hríseyjarskóla, Síðuskóla og Íþróttahöll.

Ritarar, húsverðir og tölvuumsjónarmenn grunnskóla fara í verkfall og eingöngu skólastjórar hafa heimild til að ganga í þeirra störf. Símsvörun verður því mjög takmörkuð í grunnskólum. Nokkrir stuðningsfulltrúar fara í verkfall en áhrifin af því verða hverfandi nema í Hlíðarskóla þar sem þrír þeirra eru.

Ferliþjónusta fyrir þau börn sem hennar njóta liggur niðri á mánudag og þriðjudag, svo framarlega sem ekki verði veitt undanþága frá verkfalli fyrir bílstjóra, en það skýrist vonandi sem fyrst.

Rétt er að geta þess að fyrirhuguð verkföll hafa engin áhrif á þjónustu leikskóla á Akureyri. Þá verður starfsemi Tónlistarskólans á Akureyri með óbreyttum hætti.

Röskun á þjónustu búsetusviðs og fjölskyldusviðs

Afgreiðsla búsetusviðs verður lokuð og ekki svarað í síma. Umsóknir sem berast munu bíða og verður ekki tekið við pöntunum eða afpöntunum á heimsendum mat. Að öðru leyti en afgreiðslu verður starfsfólk búsetusviðs í vinnu.

Hjá Plastiðjunni Bjargi Iðjulundi (PBI) eru verkstjórar og starfsmaður í afgreiðslu í stéttarfélaginu Kili og því verður lokað á mánudag og þriðjudag ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Sótt hefur verið um undanþágu frá verkfalli til undanþágunefndar vegna PBI en svar hefur ekki borist. Við hvetjum notendur og aðstandendur þeirra til að fylgjast með fréttum af stöðu mála.

Starfsemi Skógarlundar mun hins vegar ekki raskast og mæta notendur þangað á mánudagsmorgun eins og venjulega.

Nánar um verkfallsaðgerðir BSRB:

Sextán aðildarfélög BSRB hafa boðað til verkfallsaðgerða sem hefjast 9. mars. Aðgerðum má skipta í tvo hluta.
Annars vegar mun þorri félagsmanna hjá ríkinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg leggja niður störf á ákveðnum dögum: 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24, og 26. mars og 31. mars og 1. apríl.

Hinn hlutinn samanstendur af smærri hópum starfsmanna sem verða í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Í þeim hópi eru meðal annars starfsmenn í grunnskólum og leiðbeinendur á frístundaheimilum á nær öllu höfuðborgarsvæðinu. Í þeim hópi eru einnig starfsmenn hjá Skattinum og sýslumannsembættum um allt land.

Þessar aðgerðir halda áfram fram í dymbilviku, en hafi samningar ekki tekist fyrir 15. apríl munu félagsmenn aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum fara í ótímabundið allsherjarverkfall.

Nánari upplýsingar á heimasíðu BSRB 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan