Verður skíðasvæðið opnað 17. desember?

Mynd: Auðunn Níelsson.
Mynd: Auðunn Níelsson.

Starfsfólk Hlíðarfjalls er byrjað að undirbúa opnun skíðasvæðisins og stefnt er að því að opna 17. desember. Stemningin er góð og smá sendingar af hvítum kornum hafa komið síðastliðna daga. Einnig er búið að hlaða byssurnar og þær tilbúnar til þess að puðra snjó af fullum krafti um leið og aðstæður leyfa.

Óvissa ríkir um hvernig ástandið verður vegna Covid-19 faraldursins þegar hægt verður að opna svæðið en Samtök skíðasvæða á Íslandi hafa óskað eftir upplýsingum um tilhögun á starfsemi skíðasvæða næstu mánuði. Vonast er til þess að þau mál skýrist á næstu vikum.

Vinna við nýju stólalyftuna er nú á allra síðustu metrunum og á aðeins eftir að gera ákveðnar öryggisprófanir á öllum búnaði í samráði við framleiðanda. 

Nýja lyftan stækkar skíðasvæðið umtalsvert. Hún nær upp í mikla hæð og svæði sem er í töluverðum bratta. Vegna þessa þarf að hafa góðan vara á vegna snjóflóðahættu sem getur skapast við viss skilyrði. Nú er unnið að því að setja upp svokallaðan sprengiturn sem verður notaður af eftirlitsmönnum til að koma af stað flóðum eftir þörfum og áður en þau skapa hættu. Þrír starfsmenn hafa tekið sérstök próf á þessu sviði og öðlast tilskilin réttindi til að grípa til réttra ráðstafana ef þurfa þykir.

Vonandi tekst að hrekja Covid-19 af landi brott og þá getum við séð fram á frábæra skíðavertíð áður en langt um líður.

Forsala á vetrarkortum stendur yfir þar til skíðasvæðið opnar og er hægt að kaupa þau á heimasíðu Hlíðarfjalls.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan