Velkomin á kynningarfund á mánudaginn

Fundurinn verður í Hofi - mynd: Auðunn Níelsson
Fundurinn verður í Hofi - mynd: Auðunn Níelsson

Akureyrarbær býður íbúum á opinn kynningarfund um breytingu á aðalskipulagi fyrir hluta Oddeyrar. Fundurinn verður haldinn mánudaginn 21. október klukkan 17 í menningarhúsinu Hofi.

Bæjarstjórn samþykkti nýverið skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi á svæði sem afmarkast af Hjalteyrargötu í vestri, Kaldbaksgötu í austri, Gránufélagsgötu í norðri og Strandgötu í suðri. Svæðið er að mestu skilgreint sem athafnasvæði en með breytingunni er gert ráð fyrir að það breytist í íbúðarsvæði þar sem heimilt verður að byggja allt að 6-11 hæða fjölbýlishús með athafnastarfsemi á neðstu hæð. Hér er nánari frétt um málið og hér er hægt að lesa lýsingu á verkefninu.

Fyrirkomulag fundarins verður þannig að Pétur Ingi Haraldsson, sviðsstjóri skipulagssviðs, kynnir í upphafi lýsingu á aðalskipulagsbreytingunni. Í kjölfarið mun Orri Árnason, arkitekt hjá Zeppelin arkitektum, kynna tillögur þróunaraðila að uppbyggingu á skipulagsreitnum. Gert er ráð fyrir að kynningarnar taki samtals um 30-40 mínútur og stax á eftir býðst fundargestum að spyrja úr sal í um 20 mínútur.

Að þeim tíma loknum gefst tækifæri til að kynna sér skipulagslýsinguna í rólegheitum, tillögur þróunaraðila og önnur gögn um málið á veggspjöldum sem verða á staðnum. Pétur Ingi og Orri verða áfram til taks og svara spurningum og ræða við gesti til klukkan 19.

Allir velkomnir!

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan