Velferðarsvið og SÍMEY hefja fræðsludaga

Stýrihópur verkefnisins ásamt ráðgjöfum SÍMEY. Á myndina vantar Andreu Laufey Hauksdóttur og Kamilu …
Stýrihópur verkefnisins ásamt ráðgjöfum SÍMEY. Á myndina vantar Andreu Laufey Hauksdóttur og Kamilu Kinga.

Undanfarin ár hefur Velferðarsvið Akureyrarbæjar starfað með SÍMEY að þróun símenntunar fyrir starfsfólk sviðsins. Þarfagreining var framkvæmd sl. haust og niðurstöður hennar nýttar, í samráði við stýrihóp verkefnisins, til að móta þriggja ára fræðsluáætlun. Verkefnið var styrkt af starfsmenntasjóðunum Sveitamennt og Starfsþróunarsetri háskólamanna. Fyrsti áfangi námsins hefst nú í febrúar.

Velferðarsvið Akureyrarbæjar hefur umsjón með fjölbreyttri þjónustu, svo sem búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk, félagsþjónustu, barnavernd og þjónustu við börn og fjölskyldur. Á sviðinu starfa um 500 manns í ólíkum og fjölbreyttum störfum. „Þessi breiða starfsemi gerir starfsþróun afar brýna,“ segir Ingunn Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri og ráðgjafi hjá SÍMEY. Hún bendir á að störfin séu krefjandi, byggist á mannlegum samskiptum og oft fylgi þeim mikið álag. „Markhóparnir eru ólíkir, störfin mismunandi og menntunin fjölbreytt. Við stefnum að því að fræðslan nái til sem flestra og sé bæði almenn og sérhæfð,“ segir Ingunn Helga.

Fræðsludagarnir í febrúar hefjast með námskeiðum um jákvæð samskipti og liðsheild, sem Anna Steinsen frá KVAN sér um, og fræðslu um réttindi fatlaðs fólks, sem Áslaug Melax frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu leiðir. „Á næstu misserum mun fræðslan einnig ná yfir efni eins og sálfræðilegan stuðning frá Rauða Krossinum, líkamsbeitingu, valdeflingu og jafnvel matreiðslunámskeið,“ segir Ingunn Helga.

Í þarfagreiningunni var starfsfólk beðið um að meta eigin þekkingu og færni ásamt því sem það telur sig þurfa til að sinna störfum sínum betur. Fræðsluáætlunin hefur verið sérsniðin í takt við þessar niðurstöður. „Markmiðið er að starfsfólkið verði öruggara í starfi sínu, fái þá fræðslu sem það þarf og að þjónustan verði betri í kjölfarið.“

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan