Vel sótt jólaboð fyrir sjálfboðaliða

Frá jólaboðinu. Mynd af heimasíðu ÖA.
Frá jólaboðinu. Mynd af heimasíðu ÖA.

Um 50 manns mættu á árlegt jólaboð fyrir sjálfboðaliða Öldrunarheimila Akureyrar og nutu dýrindis máltíðar sem starfsfólk í eldhúsi á Hlíð töfraði fram.

Á hverjum degi allan ársins hring koma sjálfboðaliðar í heimsókn á öldrunarheimilin, tengjast og virkja íbúana og opna þannig dyr út í samfélagið. Þeirra óeigingjarna sjálfboðaliðastarf er mikils metið og er jólaboðið þakklætisvottur frá Öldrunarheimilunum.

Sjálfboðaliðarnir eru virkir þátttakendur í starfi ÖA. Þeir aðstoða við þátttöku í ýmsum viðburðum, taka þátt í bakstri, hitta og spjalla við íbúana, syngja og dansa.

Hér á landi er ekki rík hefð fyrir sjálfboðaliðastarfi af þessu tagi líkt og er til að mynda í Bandaríkjunum. Þar leggur m.a. skólakerfið mikið upp úr því að sjálfboðastarf sé á ferilsskránni þegar sótt er um skólavist. Gaman er að geta þess að fyrr í vetur bönkuðu bandarísku hjónin Theresa og Zeno upp á hjá ÖA og óskuðu eftir að fá að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi en þau hafa hér vetursetu. Theresa og Zeno koma á Hlíð á miðvikudögum og aðstoða í Kaffi Sól ásamt fleiri sjálfboðaliðum.

Samskipti og tengsl eru mikilvægir þættir til að fyrirbyggja og rjúfa einmanaleika. Að upplifa einmanaleika getur haft áhrif á heilsu og lífsgæði og því er mikilvægt að viðhalda nánum tengslum og vera félagslega virkur. Þar leggja sjálfboðaliðarnir sín lóð á vogarskálarnar svo um munar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan