Vel heppnuð Akureyrarvaka

Akureyrarvöku á 157. ára afmæli Akureyrarbæjar lauk á miðnætti laugardagskvöldið 31. ágúst með miðnætursiglingu eikarbátsins Húna II um Pollinn eftir magnaða stórtónleika í Listagilinu þar sem einvala lið tónlistarmanna steig á stokk.

Allar veðurspár brugðust góðu heilli og var veður stillt og sólríkt á laugardeginum en stjörnubjart þegar leið á kvöldið. Vel var mætt á tónleikana í Listagilinu og allt fór fram hið besta.

Ljósasýning Almars Freys, Tálsýnar, á byggingum beggja vegna sviðsins í Listagilinu og lýsing Extons og Bernharðs Más Sveinssonar á sjálfri Akureyrarkirkju glöddu augu viðstaddra á meðan Bríet, Eik Haralds, Eyþór Ingi, Friðrik Dór og Helgi Björns sungu sín vinsælustu lög við undirleik hljómsveitarinnar Vaðlaheiðarinnar.

Dagskráin hófst kl. 10 á föstudagsmorgun og hefur hver viðburðurinn rekið annan.

Meðfylgjandi myndir tóku Helga Gunnlaugsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir. Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfu og fletta á milli þeirra.

     

       

     

   

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan