Vegna uppsetningar stólalyftu í Hlíðarfjalli

Í tilefni af fréttum og umræðu um kaup Akureyrarbæjar á stólalyftu í Hlíðarfjalli er mikilvægt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Akureyrarbær og Vinir Hlíðarfjalls gerðu samning sumarið 2017 um kaup og uppsetningu á stólalyftu í Hlíðarfjalli. Samkvæmt samningnum áttu Vinir Hlíðarfjalls að útvega öll leyfi fyrir uppsetningu lyftunnar, sjá um kaupin og annast allar framkvæmdir við uppsetningu. Akureyrarbær myndi útvega takmarkað vinnuframlag starfsmanna Hlíðarfjalls við uppsetninguna eftir óskum og þörfum. Bærinn myndi svo taka við rekstri lyftunnar eftir að hún hefði verið reist og leigja hana til 15 ára, eða þar til verkefnið hefði verið greitt upp að fullu.

Upphaflegur áætlaður kostnaður við verkefnið var 363 milljónir króna. Gert var ráð fyrir því að framkvæmdaaðili fjármagnaði framkvæmdirnar með 100 milljóna króna hlutafé og með lánsfé að fjárhæð 263 milljónum króna. Í lok ágúst 2017 var tilkynnt að Samherjasjóðurinn ætlaði að gefa Vinum Hlíðarfjalls lyftu, bolta og vír og flytja til landsins. Kostnaður við þann hluta verkefnisins hafði verið áætlaður ríflega 90 milljónir króna. Þetta breytti engu um samning Akureyrarbæjar og Vina Hlíðarfjalls.

Það sem hefur gerst í millitíðinni er að kostnaður við uppsetningu lyftunnar hefur aukist af ýmsum ófyrirséðum ástæðum og Vinir Hlíðarfjalls áttu að óbreyttu erfitt með að klára verkefnið sem er þó langt komið.

Fulltrúar Vina Hlíðarfjalls óskuðu því eftir viðræðum við Akureyrarbæ um breytingar á samningnum frá 2017. Bæjarráð tók erindið fyrir á fundi 12. desember og samþykkti meirihlutinn að gera nýjan samning við Vini Hlíðarfjalls:

„Með samningnum verði gert ráð fyrir að bærinn yfirtaki eignina við verklok í stað þess að leigja hana til næstu 15 ára eins og segir í uppbyggingarsamningi. Þessar breytingar á samningi eru til komnar vegna verulega aukins kostnaðar við uppsetningu lyftunnar.

Vinir Hlíðarfjalls og Akureyrarbær munu leggja til aukin framlög og yrði hlutur bæjarins allt að 60 milljónum króna hærri en uppbyggingarsamningur gerði ráð fyrir auk meira vinnuframlags starfsmanna Hlíðarfjalls. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður Akureyrarbæjar til framtíðar verði meiri en í forsendum uppbyggingarsamnings,“ segir í bókun meirihluta bæjarráðs.

Þetta þýðir að Akureyrarbær tekur yfir verkefnið og eignast lyftuna strax og hún er komin upp, í stað þess að leigja hana í 15 ár eins og til stóð og kaupa hana svo jafnvel í kjölfarið, sem hefur í för með sér meiri útgjöld sveitarfélagsins til skemmri tíma en sambærileg til lengri tíma. Með tilliti til fjármögnunarmöguleika Akureyrarbæjar annars vegar og Vina Hlíðarfjalls hins vegar var þetta talin skynsamlegasta lausnin á þessum tímapunkti.

Vonast er til að stólalyftan verði tilbúin til notkunar sem allra fyrst, mörgum Akureyringum og öðru skíðaáhugafólki til mikillar gleði. 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan