Hvað er á döfinni 2018?

Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2018 til 2021 var samþykkt í bæjarstjórn í gærkvöldi. Í ætluninni er gert ráð fyrir batnandi afkomu í rekstri öll árin fram til ársins 2021 og að árið 2018 verði rúmir 2,2 milljarðar afgangs fyrir fjármagnsliði og að rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um 877 milljónir króna. Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar rúmir 24,6 milljarðar árið 2018 en gjöld tæplega 22,5 milljarðar.

Í kynningu sem formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, flutti í bæjarstjórn komu fram ýmis áhugaverð atriði sem varða einstaka málaflokka í rekstri bæjarins árið 2018.

Fram kom að útgjöld til félagsþjónustu aukast um 191 milljón króna árið 2018 eða um 5,5%. Umönnun og þjónusta við fatlaða verður aukin sem og heimaþjónusta og þá verður aukin þjónusta í skammtíma- og skólavistun fyrir fatlaða. Barnavernd verður efld með því að ráða löglærðan starfsmann til fjölskyldusviðs, fjölga á félagslegum íbúðum og veita stofnstyrki vegna almennra leiguíbúða. Þá verður lögð áhersla á að fjölga íbúðum fyrir fatlað fólk með mikla stuðningsþörf á næstu árum og hafin bygging þjónustukjarna með sex íbúðum á árinu 2018.

Útgjöld til fræðslu- og uppeldismála aukast um 218 milljónir eða um 3,2%. Systkinaafsláttur á leikskólum með öðru barni verður hækkaður í 50%, 20 milljónum króna verður veitt á ári til nútímavæðingar í grunnskólum, unnið að viðbyggingu Hlíðarskóla, frágangi lóðar við Naustaskóla og hönnun á leikskóla við Glerárskóla. Gjaldskrá leikskóla og dagvistunar mun hækka um 2,5% en það þýðir að hlutur foreldra verður ríflega 18% af kostnaði við hvert leikskólapláss.

Útgjöld til æskulýðs- og íþróttamála aukast um 55 milljónir á milli ára eða um 2,8%. Þar ber hæst að frístundastyrkir til barna og ungmenna hækka um 50% og hafin verður uppbygging á athafnasvæði siglingaklúbbsins Nökkva. Þá verður lokið frágangi við heita potta og lóð við Sundlaug Akureyrar. Einnig verður ráðist í endurnýjun á gúmmíkurli á sparkvöllum við grunnskóla bæjarins.

Útgjöld til menningarmála aukast um 50 milljónir króna á milli ára eða um 6,8%. Framlög til Menningarfélags Akureyrar verða aukin í tengslum við endurnýjun á menningarsamningi við ríkið og lögð verður áhersla á að ljúka uppbyggingu við Listasafnið.

Á sviði umferðar- og samgöngumála aukast útgjöld um 85 milljónir króna eða um 11%. Þar er höfuðáhersla lögð á aukið viðhald gatna og stíga, aukið fjármagn til götulýsingar, metanvæðingu strætisvagna bæjarins og að farið verði í úttekt og hönnunarvinnu vegna fyrirhugaðrar samgöngumiðstöðvar.

Útgjöld til umhverfismála aukast um 61 milljón á milli ára eða um 27%. Framlag til fegrunar og hirðingar opinna svæða verður aukið og samstarf við Vistorku á sviði umhverfismála eflt. Þá verður nýja brúin á göngustígnum austan Drottningarbrautar kláruð.

Ótalið er að álagningarprósenta fasteignaskatts er lækkuð um 8% auk þess sem afsláttur til elli- og örorkulífeyrisþega verður aukinn.

Stærstu framkvæmdir sveitarfélagsins liggja í B-hluta fyrirtækjunum en á næsta ári verður 2 milljörðum varið í framkvæmdir á vegum Norðurorku m.a. vegna heita- og kaldavatnskerfis og fráveitu og 307 milljónum vegna hafnsögubáts og bryggjuframkvæmda á vegum Hafnarsamlagsa Norðurlands.

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2018-2021 flutt í bæjarstjórn Akureyrar 12. desember 2017.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2018-2021.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan